Unnið er að því að afla stuðnings við tillögu Sjálfstæðismanna um að ákæra Alþingis á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði dregin til baka. Vonast er til að hægt verði að leggja tillöguna fram í dag.
Heimildarmenn Fréttablaðsins innan Sjálfstæðisflokksins telja sig hafa aflað nægilegs stuðnings við tillöguna. Mikil áhersla er lögð á að fá meðflutningsmenn úr öðrum flokkum, en það mundi gera tillöguna sterkari.
Þingflokkur Samfylkingarinnar fundaði um málið klukkan 13 í gær og til stóð að funda aftur í gærkvöldi. Af því varð þó ekki. Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokksins, sagði í samtali við Vísi að enginn þingmaður flokksins yrði meðflutningsmaður að slíkri tillögu.
Það fer ekki saman við orð Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem útilokaði ekki, í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi, að hann yrði meðflutningsmaður. „Ég þarf að skoða það hvort ég verð meðflutningsmaður, ég áskil mér allan rétt til þess,“ sagði Sigmundur, en hann var á leið til landsins.
Þingflokkur Vinstri grænna fundaði um málið í gærkvöldi. Þar var samþykkt að málið yrði ekki lagt fram í nafni þingflokksins. Einstaka þingmenn yrðu þó að ráða hvað þeir gerðu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kynnti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir málið í þingflokknum og styður hún tillöguna. Ekki náðist í Guðfríði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær.
Líklega kemur þingsályktunartillaga um málið fram í dag. Heimildir Fréttablaðsins herma að afbrigða verði leitað til að koma málinu á dagskrá, en tvær nætur verða að líða frá útbýtingu til afgreiðslu. Sjálfstæðismenn telja að tillagan sé þess eðlis að rétt sé að taka hana strax á dagskrá. Störf saksóknara Alþingis komist í uppnám verði tillagan hangandi yfir honum. Því sé best að kjósa strax um hana.
Óvíst er hvort stuðningur er við tillöguna inni á þingi.
kolbeinn@frettabladid.is
Leita stuðnings við afturköllun ákæru
