Erlent

Áttu að beita öllum ráðum

Sýrlenskir hermenn Skildu skipanir yfirmanna þannig að þeir mættu skjóta og drepa að vild.Fréttablaðið/AP
Sýrlenskir hermenn Skildu skipanir yfirmanna þannig að þeir mættu skjóta og drepa að vild.Fréttablaðið/AP
Liðhlaupar úr sýrlenska hernum skýra frá því að yfirmenn þeirra hafi gefið þeim skipanir um að brjóta öll mótmæli á bak aftur með öllum tiltækum ráðum. Þeir segjast hafa skilið þetta sem svo að þeim væri frjálst að skjóta og drepa að vild til þess að stöðva mótmælin gegn Basher al-Assad forseta og öðrum stjórnvöldum.

Þetta kemur fram í skýrslu frá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, sem byggð er á meira en 60 viðtölum við liðhlaupa úr sýrlenska hernum og sýrlensku leyniþjónustunni. Í skýrslunni eru jafnframt nafngreindir 74 yfirmenn sem gáfu slíkar skipanir.

„Liðhlauparnir gáfu okkur upp nöfn, tignarstöðu og embætti þeirra sem gáfu skipanir um að skjóta og drepa,“ segir Anna Neistat hjá Human Rights Watch. „Og hver einasti embættismaður sem nefndur er í þessari skýrslu, allt upp til æðstu embættismanna sýrlensku stjórnarinnar, ætti að svara fyrir glæpi sína gegn sýrlensku þjóðinni.“

Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna hafa harkalegar aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum kostað meira en fimm þúsund manns lífið síðan mótmælin hófust í vor.

Átökin í landinu hafa harðnað verulega síðustu vikur, ekki síst eftir að liðhlaupar úr hernum gengu til liðs við mótmælendur og tóku að berjast gegn fyrrverandi félögum sínum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×