Skoðun

Hjarta í ökuskírteinið

Margrét S. Sölvadóttir skrifar
Það er yndislegt að fá að koma heim í jólafrí þegar maður býr ekki lengur á landinu kalda. Hvergi í heiminum er jólalegra eða hátíðlegra en á Íslandi á jólum. Íslendingar kunna að halda jól betur en nokkrar aðrar þjóðir að mínu mati. Svo á það svo vel við að hafa jólasnjóinn sem gerir birtu jólaljósanna enn fallegri. Mér finnst líka að það ríki einstök samkennd og hlýja í garð náungans á jólunum á Íslandi. Já, þetta er mín upplifun í hvert sinn sem ég kem til að halda jól hér heima. Íslendingar eru líka fyrstir þjóða til að taka upp nýjungar, eða það segi ég öllum erlendum vinum og kunningjum sem spyrja mikið um land og þjóð.

Ég var því svolítið undrandi þegar við umræður við vini mína hér um líffæragjafir kom í ljós að ekki er búið að taka upp þann sið hér á landi að spyrja nýja ökuskírteinishafa hvort þeir vilji gerast líffæragjafi. Þetta er gert í Bandaríkjunum og er þá sett lítið rautt hjarta í eitt horn ökuskírteinisins sem segir allt sem þarf við slíkar aðstæður.

Í Bandaríkjunum er ökuskírteinið mikið notað sem persónuskilríki og nægir það t.d. þegar flogið er á milli fylkja, svo allir sem hafa bílpróf ganga með það á sér. Þegar fólk verður fyrir slysi er gott að vita strax hvað má gera ef viðkomandi hefur það ekki af og þá er allt til reiðu til að bjarga öðrum mannslífum. Líka hlýtur það að vera auðveldara fyrir aðstandendur ef slíkt hefur verið ákveðið af gjafanum sjálfum.

Það er líka einhvern veginn svo auðveld ákvörðun að taka, þegar maður er spurður við endurnýjun ökuskírteinis hvort maður vilji vera líffæragjafi. Það fannst mér og ég er viss um að það muni mörgum finnast og þá er þessi ákvörðun staðfest. Ég vil leggja það til að þeir sem um þessi mál sjá setji þá reglu að umsækjandi ökuskíteinis sé spurður hvort hann vilji vera líffæragjafi og fá lítið sætt hjarta í hornið á ökuskírteininu sínu, sem ef til vill gæti bjargað mörgum mannslífum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×