Lífið

Logi Geirs hefur störf í sjónvarpi

Logi Geirsson er á leið í sjónvarpið en hann verður einn fjögurra sérfræðinga hjá Stöð 2 Sport á meðan HM í handbolta fer fram um miðjan janúar. Fréttablaðið/Vilhelm
Logi Geirsson er á leið í sjónvarpið en hann verður einn fjögurra sérfræðinga hjá Stöð 2 Sport á meðan HM í handbolta fer fram um miðjan janúar. Fréttablaðið/Vilhelm
„Logi [Geirsson] er meiddur og getur ekki verið með landsliðinu en mun í stað þess vera tengiliður milli landsliðsins og þjóðarinnar enda þekkir hann hvern krók og kima hjá því, öll leikkerfi og getur jafnvel lesið í andlitsdrætti leikmanna,“ segir Þorsteinn J. Vilhjálmsson, umsjónarmaður HM-stofu Stöðvar 2 Sport í handbolta. Hann hefur fengið til liðs við sig fjóra þjóðþekkta handknattleikssérfræðinga á meðan HM fer fram í Svíþjóð en þetta eru auk Loga þau Guðjón Guðmundsson, Geir Sveinsson og Hafrún Kristjánsdóttir. Mótið hefst 13. janúar næstkomandi.

Logi sjálfur er auðvitað hund­svekktur að geta ekki verið með landsliðinu í Svíþjóð enda segir hann liðið nú vera einstakt, það geti unnið til verðlauna og slíku vilji enginn leikmaður missa af. „Ég var með svona atvinnumannaskóla fyrir yngstu kynslóðina í Kaplakrika milli jóla og nýárs og endaði skólann á því að sýna þeim myndbandið sem við horfðum á fyrir úrslitaleikinn gegn Frökkum á Ólympíuleikunum. Og það féllu alveg tár þegar maður rifjaði þetta upp,“ segir Logi, sem hefur verið að glíma við erfið meiðsl í öxl.

Logi hlakkar hins vegar til að takast á við sjónvarpsverkefnið og segist ætla að útskýra fyrir fólki alls kyns smáatriði sem varða leik landsliðsins og fólk skilur kannski ekki. „Til að mynda af hverju við spilum stundum 5-1 vörn, hvað leikkerfin ganga út á og hvernig þau eiga að ganga upp. Ég vona bara að ég komi þessu skemmtilega frá mér,“ segir Logi, sem hefur miklar væntingar til landsliðsins og telur að „strákarnir okkar“ geti barist um gullið ef allt gengur upp. „Það er einfaldlega kominn tími á sigur.“- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.