Íslenski boltinn

Kristín Ýr með þrennu fyrir Val sem komst upp að hlið ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir. Mynd/Stefán
Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði þrennu fyrir Íslandsmeistara Vals sem unnu 4-1 sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum í 5. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Stjarnan vann 2-1 sigur á Þór/KA fyrir norðan, Breiðablik vann sinn annan leik í röð og Þróttarakonur fögnuðu sínum fyrsta sigri í sumar.

Caitlin Miskel kom Val í 1-0 í Mosfellbænum en Valskonur þurftu að bíða í 65 mínútur eftir markinu. Kristín Ýr skoraði síðan þrennuna sína á tólf mínútna kafla áður en Elín Svavarsdóttir minnkaði muninn í lokin. ÍBV og Valur eru nú jöfn á toppi deildarinnar en ÍBV er með betri markatölu.

Soffía Gunnarsdóttir tryggði Stjörnunni 2-1 sigur á Þór/KA fyrir norðan en þetta var fyrstu sigur Garðabæjarstúlkna á náttúrulegu grasi í sumar. Sigurmark Soffíu kom tíu mínútum fyrir leikslok. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom Stjörnunni í 1-0 eftir 25 mínútur en Manya Makoski jafnaði leikinn fyrir hálfleik.

Breiðablik fór í Árbæinn og vann 2-1 sigur en þetta var annar sigur Blikana í röð eftir að liðið náði í aðeins eitt stig út úr fyrstu þremur umferðunum. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Andrea Ýr Gústavsdóttir komu Breiðabliki í 2-0 en Fjóla Dröfn Friðriksdóttir  minnkaði muninn fyrir Fylki.

Soffía Kristinsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir, Margrét María Hólmarsdóttir

og Fanny Vago skoruðu mörk Þróttar í 4-2 heimasigri á botnliði Grindavíkur en Shaneku Gordon og Anna Þórunn Guðmundsdóttir komu báðar Grindavík yfir í leiknum.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×