Innlent

Minningarfundur á Alþingi vegna Jóns forseta

Mynd/Anton Brink
Alþingi kemur saman í dag og er aðeins eitt mál á dagskrá, tillaga um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta. Um er að ræða minningarfund í tilefni af 200 ára fæðingarafmælis Jóns næstkomandi föstudag. Tillagan er lögð fram af forsætisnefnd Alþingis.

Fyrri umræða um þingsályktunartillöguna fór fram þann 11. júní en síðari umræða og atkvæðagreiðsla fer fram á minningarfundinum í dag. Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, setur fundinn og flytur stutt ávarp. Einn ræðumaður frá hverjum þingflokki talar í umræðunni og að lokinni atkvæðagreiðslu flytur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, stutt ávarp.

Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að prófessorsstaðan verði stofnuð við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði meðal annars við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Gert er ráð fyrir að staðan verði auglýst og skipað í hana á fimm ára fresti eftir almennum reglum um prófessora og heimilt verði að endurnýja skipunartímann einu sinni.

Lagt er til að prófessorinn hafi rannsókna- og kennsluskyldu í sínu fagi. Eitt lykilverkefna hans verði að halda árlega ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum. Við skipun í prófessorsembættið verði höfð hliðsjón af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknarstarf og kennslu tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efli þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að prófessorinn geti tekið til starfa frá og með næstu áramótum.

Þingfundinum verður útvarpað og sjónvarpað. Hann hefst klukkan 11.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×