Erlent

Portúgal þarf 80 milljarða

Nafnarnir Jean-Claude Juncker og Jean-Claude Trichet fjármálaráðherra Lúxemborgar og bankastjóri Seðlabanka Evrópu á fundinum í Ungverjalandi.
Nafnarnir Jean-Claude Juncker og Jean-Claude Trichet fjármálaráðherra Lúxemborgar og bankastjóri Seðlabanka Evrópu á fundinum í Ungverjalandi. Mynd/AP
Fjármálafróðir embættismenn Evrópusambandsins munu sitja næstu vikurnar við að reikna út hve mikið fé portúgalska ríkið þarf í aðstoð frá ESB til að geta staðið við skuldbindingar sínar næstu mánuði og misseri.

 

Olli Rehn, peningamálastjóri framkvæmdastjórnar ESB, sagðist í gær telja að Portúgalar muni þurfa 80 milljarða evra, eða rétt rúmlega 13.000 milljarða króna, en tók fram að þetta væri algjört bráðabirgðamat. Endanleg upphæð verði ekki ljós fyrr en að loknum nokkurra vikna rannsóknum.

 

Samningur ætti þó að verða tilbúinn til undirritunar um miðjan maí, rétt í tæka tíð fyrir gjalddaga stórra lána í júní.

 

Nú í vikunni fór Portúgal fram á aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það kom í hlut Jose Socrates, sem gegnir embætti forsætisráðherra landsins þangað til nýtt þing hefur verið kosið, að biðja um aðstoðina, en hann sagði af sér í síðasta mánuði eftir að þjóðþing landsins hafnaði áformum hans um aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.

 

Portúgal er þriðja evruríkið sem fer þessa leið, en áður hafa bæði Grikkland og Írland neyðst til að leita á náðir Evrópusambandsins til að bjarga sér út úr óviðráðanlegri kreppu.

 

Fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna, sem hittust í Ungverjalandi í gær, segja að jafnframt aðstoðinni verði Portúgölum sett ströng skilyrði um aðhald í ríkisfjármálum, sem eiga að tryggja að landið geti greitt af lánum sínum næstu þrjú árin. Þau skilyrði verða enn strangari en þær aðhaldsaðgerðir, sem portúgalska þingið hafnaði, þannig að nú bíða evrópskra og portúgalskra ráðamanna erfiðar samningaviðræður.

 

Ekki er þó víst að stjórnvöldum Grikklands, Írlands og nú Portúgals takist að standa við þau ströngu skilyrði, sem þeim hafa verið sett. Mikil reiði hefur verið meðal almennings, sem hefur átt erfitt með að sætta sig við að aðhaldsaðgerðirnar bitni á þeim sem síst skyldi.

 

Þannig fengu Grikkir í gær áminningu frá Seðlabanka Evrópu um að standa við tímaáætlun um þær aðgerðir, sem þeir hafa skuldbundið sig til að hrinda í framkvæmd.

„Við minntum grísk stjórnvöld á það að mikilvægt sé að halda sig við markmið um fjárlagahalla næstu árin,“ sagði Jean Claude Juncker, fjármálaráðherra Lúxemborgar, sem jafnframt er aðaltalsmaður evruríkjanna.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×