Íslenski boltinn

Kjartan Henry: Hinn rauðhærði Nesta kom til bjargar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR, lét ekki meiðsli í öxl og veikindi stöðva sig og spilaði í 90 mínútur gegn Keflavík í kvöld. Hann lagði upp eitt mark í dramatískum 3-2 sigri sinna manna.

Allt útlit var fyrir jafntefli þar til að Aron Bjarki Jósepsson skoraði sigurmark KR með skalla eftir hornspyrnu í uppbótartíma.

„Þessi sigur var ógeðslega sætur," sagði Kjartan Henry en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Við höfum fengið á okkur nokkur mörk á lokamínútunum í sumar og hefur það verið mjög fúlt. Það var því sætt að kynnast hinu líka."

„Sigurmarkið kom líka úr óvæntri átt. Hinn rauðhærði Nesta kom fljúgandi og skallaði boltann í netið," bætti hann við í léttum dúr. Hann átti þar vitanlega við Aron Bjarka sem skoraði sigurmark KR.

Hann segir að það hefði verið erfitt að kyngja þeirri niðurstöðu að fá aðeins eitt stig úr leiknum, hefði leiknum lyktað með jafntefli.

„Maður var farinn að horfa á klukkuna og hrista hausinn. En við héldum áfram og uppskárum horn. Bjarni sendi frábæran bolta inn og það vann leikinn fyrir okkur."

KR var með talsverða yfirburði í leiknum þar til að Keflavík sótti í sig veðrið á síðustu 20 mínútunum og náðu að jafna metin. „Þetta hefur ekki verið að falla með okkur í síðustu leikjum og var kominn tími á sigur. Maður hugsar alltaf um það sem maður hefði getað gert betur en það þýðir ekkert að dvelja við það. Maður verður bara að vera fullorðinn."

„Nú erum við einir á toppnum og það er ótrúlega skemmtilegt," sagði Kjartan Henry. Hann segir það góð tilfinning að hafa loksins klárað þennan frestaða leik gegn Keflavík og vera búnir að spila jafn marga leiki og önnur lið í deildinni.

„Maður trúir því varla að það séu bara tveir leikir eftir. Við æfum í átta mánuði á árinu fyrir þetta mót og nú eru tveir leikir eftir. Við hljótum að geta gefið allt sem við eigum í þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×