Lífið

Umslög Bobbys seljast vel

Bobby Breiðholt hannar umslagið við nýjustu plötu Hjálma, Óróa.
Bobby Breiðholt hannar umslagið við nýjustu plötu Hjálma, Óróa. Fréttablaðið/Vilhelm
Bobby Breiðholt, eða Björn Þór Björnsson, hefur fengið það verkefni að hanna umslag væntanlegrar plötu Hjálma, Óróa, sem kemur út í október.

Flestar plötur sem Bobby hannar umslögin við hafa náð miklum vinsældum og svo virðist sem allt sem hann snerti verði að gulli. „Það er nú aðallega verkefni tónlistarmannsins að gera gullið en það er auðvelt að gera skemmtilega hluti þegar maður er með gott efni í höndunum,“ segir Bobby.

Á ferilskrá hans eru umslög utan um plötur með Diskóeyjunni og Blaz Roca sem báðar komu út í fyrra og seldust í um fimm þúsund eintökum hvor. Áður vann hann umslagið við Farewell Good Night"s Sleep með Lay Low sem hefur selst í tæplega níu þúsund eintökum. Fyrr á þessu ári kom svo út önnur plata FM Belfast, Don"t Want To Sleep, sem hefur fengið fínar viðtökur. Þar var Bobby einn af hönnuðunum.

Auk Hjálma-plötunnar er Bobby með fleiri járn í eldinum. Hann vinnur aftur með Lay Low að væntanlegri plötu hennar og hannar umslag nýjustu plötu Nolo. Miðað við söguna má búast við að þær báðar eigi eftir að falla vel í kramið á meðal tónlistarunnenda.

Hann segir misjafnt hversu lengi hann sé að ljúka við hvert umslag. Ein vika er þó meðaltalið. Spurður hvort hann fái ekki góðan vasapening fyrir þetta segir hann: „Það er mismunandi eftir fjármagninu sem listamennirnir og útgáfurnar vilja setja í þetta.“

En hvað með prósentur af seldum eintökum?

„Nei, en þegar Lay Low fór í gull með Farewell Good Night"s Sleep fékk ég alla vega gullplötu,“ segir hann léttur. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.