Lífið

Tvær íslenskar tilnefningar

Arnar Eggert spáir því að Jónsi hljóti Norrænu tónlistarverðlaunin fyrir plötuna Go. fréttablaðið/stefán
Arnar Eggert spáir því að Jónsi hljóti Norrænu tónlistarverðlaunin fyrir plötuna Go. fréttablaðið/stefán
Nýjustu plötur Jónsa og Ólafar Arnalds eru á meðal tólf platna sem hafa verið tilnefndar til Norrænu tónlistarverðlaunanna 2010. Go með Jónsa og Innundir skinni með Ólöfu Arnalds eru á meðal tólf platna sem hafa verið tilnefndar til Norrænu tónlistarverðlaunanna 2010.

Tíu íslenskar plötur voru fyrir áramót valdar í lokaúrtakið af þeim 25 sem voru upphaflega tilnefndar. Go með Jónsa varð efst í því vali og komst hún því sjálfkrafa inn á tólf platna lokalistann, rétt eins og sex plötur frá hinum Norðurlandaríkjunum. Á meðal þeirra er nýjasta verk sænsku söngkonunnar Robyn, Body Talk, og Magic Chairs með dönsku hljómsveitinni Efterklang.

Það var síðan blaðamaðurinn Arnar Eggert Thoroddsen og fjórir norrænir kollegar hans sem völdu fimm plötur til viðbótar og náði Innundir skinni þangað inn. „Ég var mjög sáttur við þessar tvær plötur og að Ólöf færi þarna inn líka. En ég var hundfúll að Hjaltalín skyldi ekki fara inn,“ segir Arnar Eggert, sem spáir því að Jónsi hreppi Norrænu tónlistarverðlaunin.

Alþjóðleg dómnefnd hefur umsjón með valinu á bestu norrænu plötunni og verða verðlaunin afhent á norsku tónlistarhátíðinni By:Larm 18. febrúar á næsta ári, þar sem Arnar Eggert verður einmitt viðstaddur. Hann hafði mjög gaman af því að taka þátt í dómnefndinni. „Þetta var mikil reynsla og gaman að sjá hvernig svona norræn samvinna virkar.“

Hugmyndin á bak við tónlistarverðlaunin er að búa til hliðstæðu við Mercury-verðlaunin í Bretlandi þar sem plötur eru valdar út frá innihaldi frekar en vinsældum.

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×