Innlent

Framleiðslubann á þúsund býlum

Díoxín mældist í eggjum í Þýskalandi og hefur því verið sett framleiðslubann á þúsund bæjum. Fréttablaðið/gva
Díoxín mældist í eggjum í Þýskalandi og hefur því verið sett framleiðslubann á þúsund bæjum. Fréttablaðið/gva
Framleiðslubann var sett á yfir þúsund þýsk sveitabýli á mánudag eftir að nokkurt magn eiturefnisins díoxíns fannst í dýrafóðri og í eggjum sem send voru í verslanir.

Ekki er vitað til þess að nokkrum hafi orðið meint af díoxín-menguðum vörum og ekki verður ljóst fyrr en eftir nokkrar vikur hversu mikið magn af megnuðum vörum barst í verslanir.

Eitrunin er rakin til dýrafóðurs, en talið er að mengaðar olíur, sem ætlaðar voru til framleiðslu lífeldsneytis hafi verið notaðar í fóður. Rannsókn á málinu er hafin, en landbúnaðarráðherra fylkisins Neðra Saxlands, sem varð verst úti, sagði við fjölmiðla að hann vonaðist til þess að þeim sem ábyrgð bæru á eitruninni yrði gerð hörð refsing og þeim bændum sem er lokað hjá verði bætt tjón sitt.

Talsmaður Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði í gær að ekki yrði sett útflutningsbann á þýskar landbúnaðarafurðir þar sem um staðbundin tilvik sé að ræða.

Díoxín verður meðal annars til við brennslu úrgangs og getur valdið fólki heilsutjóni. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×