Innlent

Sjálfstæðismenn vilja að ríkisstjórn dragi kvótafrumvarp til baka

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.
Engin sátt ríkir á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu á kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðismenn vilja að stjórnvöld dragi frumvarpið til baka.

Fyrsta umræða um stóra kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á alþingi í gær. Frumvarpið er umdeilt og hafa sjálfstæðis- og framsóknarmenn gagnrýnt það harkalega.

Upphaflega stóð til að þingmenn færu í sumarfrí á fimmtudag í næstu viku en engin sátt náðist á fundi þingflokksformanna í gær um afgreiðslu málsins. Stjórnarandstaðan telur að of stuttur tími sé til stefnu til að ljúka fyrstu umræðu og vill fresta málinu fram á haust.

Þá hafa sjálfsæðismenn gagnrýnt að ekki liggur fyrir hagfræðilegt mat á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Þeir telja málið vanhugsað og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, vill að ríkisstjórnin dragi frumvarpið til baka.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar vilja hins vegar ljúka fyrstu umræðu fyrir sumarfrí og nýta sumarið til að til vinna frekar í málinu.

Umræðu um kvótafrumvarpið verður framhaldið á Alþingi á mánudag en fátt bendir til þess að þingmenn komist sumarfrí í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×