Viðskipti innlent

Aukin loðna er yfir 5 milljarða búbót fyrir Ísland

Aukinn loðnukvóti upp á 125.000 tonn gefur þjóðarbúinu yfir 5 milljarða kr. í auknar útflutningstekjur. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum segir að kvótaaukningin sé mikil búbót fyrir útgerðina.

„Það er alveg kærkomið að fá þessa aukningu í loðnuveiðarnar núna," segir Sigurgeir en nefna má að loðnuvertíðin undanfarin tvö ár hefur verið mjög döpur.

Afurðaverð fyrir loðnuafurðir hefur hækkað töluvert undanfarin tvö ár. Samkvæmt listum um hrávöruverð á mörkuðum í heiminum sem birtur er á vefsíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verð á fiskimjöli hækkað um yfir 60% á síðustu tveimur árum. Meðalverðið var 1.160 dollarar á tonnið árið 2008 en var komið í 1.739 dollara á tonnið í fyrra.

Sigurgeir segir að einnig megi nefna að verð á loðnulýsi hafi rokið upp á síðustu mánuðum. „Það er því orðið spurningum um hvort sé hagkvæmara að frysta loðnuna eða setja hana í bræðslu," segir Sigurgeir.

Ástæðan fyrir miklum verðhækkunum á fiskimjöli og lýsi er fyrst og fremst hinn mikli uppskerubrestur á korni víða um heiminn á síðasta ári.

Í framangreindum útreikningum er miðað við útflutningsverð upp á um 45 kr. fyrir kílóið af loðnu og tekið er tillit til þess afla sem Norðmenn og aðrar þjóðir mega veiða.










Tengdar fréttir

Loðnukvótinn verður aukinn um 125.000 tonn

Hafrannsóknastofnunin leggur til að leyfilegur hámarksafli á loðnu á yfirstandandi vertíð verði ákveðinn 325 þúsund tonn. Er þetta 125 þúsund tonna aukning frá upphafskvótanum sem gefinn var út í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×