Innlent

Henti fyrrverandi sambýliskonu fjóra metra niður af svölum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árásin varð í Norðlingaholti. Mynd/ Vilhelm.
Árásin varð í Norðlingaholti. Mynd/ Vilhelm.
Þrjátíu og fimm ára gamall karlmaður var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás á fyrrverandi sambýliskonu sína á gamlársdag 2009.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa dregið konuna með ofbeldi inn í íbúð sína í Norðlingaholti í Reykjavík, haldið henni þar nauðugri og veist að henni, rifið í hár hennar, slegið hana margsinnis í andlit og líkama, sparkað í fætur hennar og hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum.

Þegar konan hugðist flýja íbúðina með því að fara fram af svölum reif maðurinn í hár hennar og sló hana með þeim afleiðingum að hún féll 4 metra fram af svölunum og niður á verönd íbúðar á jarðhæð. Við þetta brotnuðu fjölmörg bein í líkama konunnar og hún hlaut mar á enni og víðar um líkamann.

Konan fékk dæmdar tæpar 900 þúsund krónur í miskabætur. Hún bar í málinu að hún hafi verið rúmföst í viku og í hjólastól í tvær vikur eftir árásina.

Árásarmaðurinn á að baki fjölda brota, eftir því sem fram kemur í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×