Innlent

Bensínverðið hækkað um 130 prósent síðan 2005

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Fyrir sex árum var unnt að aka meðalfólksbíll frá Reykjavík og langleiðina til Egilsstaða fyrir fimm þúsund krónur. Í dag kemst hann ekki helming þessarar leiðar en bensínverð hefur nú hækkað um 130 prósent síðan 2005.

Í gær hækkaði bensínverðið enn einu sinni og hefur nú náð nýjum hæðum í um 236 krónur lítrinn. Þessi nýjasta hækkun kemur illa við budduna hjá mörgum landsmönnum og komumst við nú töluvert styttra á fimm þúsund króna áfyllingu en við gerðum áður.

Miðað er við að ekið sé á meðalbíl sem eyðir 9 lítrum á hundraði. Við hefjum ferðina í Reykjavík og höldum í norðurátt.

Fyrir 6 árum kostaði bensínlítrinn um 102 krónur og dugðu 5000 krónur þá til að keyra 545 kílómetra eða lang leiðina til Egilstaða, alla leið í Möðrudalinn. Árið 2008 hafði bensínverð hækkað umtalsvert en þá var verðið um 150 krónur og hægt var að aka í miðjan Öxnadal á 5000 krónum. Í dag 1. apríl 2011 komumst við aðeins rúma 230 kílómetra eða 40 prósent leiðarinnar árið 2005 og myndi bílinn því verða bensínlaus 10 kílómetrum fyrir utan Blönduós.

Þar að auki kostaði það fjölskylduna rúmar 12000 krónur að keyra hringinn í kringum landið árið 2005 en í sumar mun það kosta tæpar 29000 krónur, haldist bensínverðið í þessum hæðum.

Bensínið hefur því hækkað um yfir 130 prósent á 6 árum eða að meðaltali um 21,7 prósent á ári. Haldi þróunin svona áfram verður bensínlítrinn kominn í tæpar 350 krónur eftir tvö ár.

Í vikunni lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokks fram frumvarp um lækkun á sköttum á eldsneyti tímabundið sem gæti lækkað verð á bensínlítra um 28 krónur, sú lækkun yrði til þess að bíllinn okkar kæmist 30 kílómetrum lengra og gæti því fyllt á tankinn á Blönduós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×