Körfubolti

Hrafn: Nýja árið byrjar mjög vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR var ánægður með 19 stiga sigur liðsins á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. KR-ingar höfðu tapað tveimur útileikjum í röð og fjórum fyrstu fimm útileikjum tímabilsins en voru í heimavallargírnum í Garðabænum í kvöld.

„Við höfum lent í ansi mörgum efiðum útitöpum í vetur en þetta var mjör kærkominn sigur sem við unnum mjög vel fyrir," sagði Hrafn.

„Við ætluðum okkur að koma inn í leikinn og spila eins og "undirhundurinn" því það gengur ekki að þykjast vera eitthvað ofurlið sem á að vera svo roslega gott að menn ætlsst til að lið séu að gefa okkur eitthvað," sagði Hrafn.

„Við vorum búnir að vinna mjög vel í þeirra sóknarleik og þeirra áherslum og við vissum alveg hvernig við áttum að bregðast við þeim. Það gekk fullkomlega upp í fyrsta leikhlutanum. Justin fer bara að skora þegar Marcus er kominn í villuvandræði. Planið var að setja pressu á Justin allan leikinn og vonast að það myndi skila okkur því á síðustu mínútunum þegar ætlast er til þess að hann klári leikinn. Ég held að það hafi gengið eftir," sagði Hrafn

„Við fáum okkur 31 stig í öðrum leikhluta en þess utan erum við að fá á okkur 45 stig í hinum þremur leikhlutunum. Það er varnarleikur sem ég vil alltaf fá frá þessu liði. Það má segja að þetta sé mjög gott veganesti í leikinn á sunnudaginn. Mér finnst Stjarnan og Fjölnir vera að mörgu leyti með svipuð lið og við þurfum að taka svipað á þessum liðum. Þetta var mjög kærkomið í þeim undirbúningi. Nýja árið byrjar mjög vel og þetta er bara til marks um það sem koma skal," sagði Hrafn en KR tekur á móti Fjölni í bikarnum á sunnudaginn kemur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×