Handbolti

Valskonur halda áfram taki sínu á Fram - unnu sjö marka stórsigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir Val í kvöld.
Kristín Guðmundsdóttir skoraði sex mörk fyrir Val í kvöld. Mynd/Arnþór

Valur varð í kvöld fyrsta liðið til þess að vinna Fram í N1 deild kvenna á þessu tímabili en Íslandsmeistarnir unnu sjö marka sigur á Fram, 23-16 í Safamýrinni. Valskonur tryggðu sér sigurinn með frábærum seinni hálfleik sem liðið vann 12-3.

Kristín Guðmundsdóttir var markahæst hjá Val með 6 mörk en Birna Berg Haraldsdóttir skoraði mest Framara eða 6 mörk. Það dugði ekki Framliðinu að Íris Björk Símonardóttir varði yfir 20 skot í leiknum.

Fram var með frumkvæðið frá byrjun og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 13-11. Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sex mörk í hálfeiknum þar á meðal mark beint úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn.

Valskonur lokuðu vörninni í upphafi seinni hálfleiks og náðu að jafna leikinn í 14-14 eftir tíu mínútna leik. Valur komst síðan yfir í 19-15 og var því búið að halfa Framliðinu í tveimur mörkum á 24 mínútum í seinni hálfleik.

Valskonur höfðu unnið báða leikina á móti Fram í vetur, fyrst í Meistarakeppninni í september og svo í úrslitaleik deildarbikarsins í desemberlok. Framkonur höfðu hinsvegar unnið alla hin þrettán leiki sína á tímabilinu þar á meðal fjóra þeirra í Evrópukeppninni.

Frekari umfjöllun og viðtöl koma inn á Vísi seinna í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×