Innlent

Stefnir á að leiða VG áfram

Steingrímur og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG.
Steingrímur og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG. Mynd/GVA
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, segir ekkert benda til annars en að hann muni halda áfram sem formaður VG. „Hitt er þó ljóst að ég hef engin áform um að verða eilífur augnakarl, hvorki á formannsstóli Vinstri grænna né í stjórnmálum. Ég get vel hugsað mér að afhenda öðrum keflið þegar ég met það að tíminn sé réttur,“ segir Steingrímur. Nokkuð hefur verið ritað um hvort hann ætli sér að halda áfram sem formaður. Rætt er við Steingrím í helgarblaði Fréttablaðsins sem hægt er að nálgast hér.

„Ég hef verið býsna lengi í stjórnmálum og í eldlínunni. Þetta eru að nálgast 30 ár og þetta hefur verið annasamur tími, náttúrulega ekkert í líkingu við síðustu tvö og hálft ár. Því er ekkert að leyna að þetta tekur sinn toll. Maður yngist ekki mikið í þessu starfi eins og ég hef djöflast. Það hefur komið sér vel að vera með sæmilegt vinnuþrek. Ég tel það ekki eftir mér að leggja fram alla krafta mína eins og ég ýtrast get.“

Steingrímur segist ekki ætla gefa neinar yfirlýsingar um næstu kosningar. „Ég vonast til að næstu kosningar verði ekki fyrr en eftir tvö ár og þá getur margt skipt máli um ákvörðun mína; hvað er eftir í manni þegar þar að kemur, hvernig verkefnið hefur heppnast, er maður sáttur við það eða finnst manni að maður þurfi að fylgja því betur eftir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×