Innlent

Telur fótunum varla kippt undan útgerðinni

Þórólfur Matthíasson Umsögn prófessorsins hefur verið gerð opinber.
Þórólfur Matthíasson Umsögn prófessorsins hefur verið gerð opinber.
Umsögn Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, á hagrænum áhrifum stóra kvótafrumvarps ríkisstjórnarinar hefur verið gerð opinber. Umsögnina vann hann að beiðni ríkisstjórnarinnar.

Þórólfur gerir ýmsar athugasemdir við frumvarpið en segir þrátt fyrir það varla hægt að tala um að grundvelli undir útgerð sé kippt á brott með hækkun veiðigjalds. Hreinn hagnaður útgerðarinnar árið 2009 hefði verið sautján milljarðar miðað við frumvarpið, í stað tuttugu milljarða. Önnur ákvæði frumvarpsins muni að vísu draga frekar úr hagnaði en erfiðara sé að meta nákvæm áhrif.

Í umsögninni segir Þórólfur of langt gengið við að draga úr ávinningi af sölu varanlegra heimilda og að víðtækar heimildir sem ráðherra eru veittar séu varhugaverðar. Þá muni takmarkanir á framsali og stjórnvaldsstýrð tilfærsla milli útgerðarflokka draga úr hagnaði og afrakstri. Áhrif frumvarpsins á fjárhag einstakra útgerða eru sögð fara mjög eftir skuldastöðu þeirra. Verst settu fyrirtækin þurfi líklega að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu en rekstrargrundvöllur greinarinnar verði enn til staðar.

Loks segir Þórólfur að hægt væri að beita mun vægari úrræðum og ná betri árangri sé markmiðið með frumvarpinu að ná inn tekjum af auðlindinni og nota þær í þágu eigenda hennar.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×