Tónlist

Palli rokseldi í Hörpunni

Tekur sinn tíma Páll Óskar Hjálmtýsson segir það taka sinn tíma fyrir tónlistarmenn að venja sig við Hörpu og forsvarsmenn Hörpu að venja sig við tónlistarfólkið. Hann segir að ekki eigi allt heima í Hörpu.
Tekur sinn tíma Páll Óskar Hjálmtýsson segir það taka sinn tíma fyrir tónlistarmenn að venja sig við Hörpu og forsvarsmenn Hörpu að venja sig við tónlistarfólkið. Hann segir að ekki eigi allt heima í Hörpu.
12 tónar eru með einkaleyfi fyrir sölu á varningi í Hörpu og Páll Óskar Hjálmtýsson varð því að semja sérstaklega við þá þegar hann seldi Silfursafnið fyrir tónleika sína með Sinfóníuhljómsveitinni. Ýmsir hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag en Palli kvartar ekki.

„Ég og 12 tónar náðum bara lendingu í þessu máli enda eru þeir með einkarétt á sölu varnings í húsinu,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson poppstjarna. Páll hélt glæsilega tónleika í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í síðustu viku og hafði til sölu Silfursafnið sitt, sem kom út 2008. Samkvæmt Tónlistanum, sem er birtur hér framar í blaðinu, seldi Páll vel af plötunni í kringum tónleikana.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var samningur Páls og 12 tóna þess efnis að verslunin fengi helminginn af sölunni og Páll hinn helminginn, en söngvarinn stóð sjálfur straum af útgáfunni á sínum tíma.

Þetta fyrirkomulag í Hörpu hefur verið gagnrýnt en Páll vildi ekki lýsa yfir neinni óánægju með það, viðurkenndi vissulega að í fullkomnum heimi hefði hann fengið allt í sinn vasa.

„En auðvitað er betra að selja þetta á þennan hátt en að láta diskinn daga uppi inni á lager. Þessi eintök skipta auðvitað ekki neinu máli í hinu stóra samhengi því Silfursafnið hefur þegar selst í nítján þúsund eintökum.“ Og söngvarinn, sem verður að teljast skærasta stjarna íslenska poppsins um þessar mundir, vill að menn fari að slíðra sverðin í gagnrýni sinni á Hörpu. „Við verðum bara að læra á húsið og allt sem tengist því í litlum skrefum, læra inn á hljómburð og hljóðkerfi og tala heiðarlega út um hlutina. Og gera okkur grein fyrir því að það passar kannnski ekki allt inn í Hörpu.“

Eiður Arnarson, útgáfustjóri hjá Senu, segir ekkert óeðlilegt í sjálfu sér við fyrirkomulagið á plötusölu í Hörpu. „Þetta er bara heildsali sem selur smásala sem aftur selur neytandanum. Menn geta síðan haft sína skoðun á einkaréttindunum,“ segir Eiður.

Ákveðin hefð hefur hins vegar verið fyrir því að tónlistarmenn hafi sjálfir selt plötur sínar á tónleikum, til að mynda úti á landi og á tónleikum í Reykjavík. Þeir geta hins vegar ekki stundað slíka iðju ef þeir kjósa að halda tónleika í Hörpu. Einyrkjar eins og Páll Óskar og Mugison, sem báðir gefa út eigin verk, verða því að sætta sig við að semja við 12 tóna eins og Páll gerði ef þeir ætla að selja nýjustu afurðir sínar í kringum tónleika. freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×