Innlent

Ljósmyndin ræður ríkjum

Femke van der Welk, fulltrúi World Press Photo segir ljósmyndina aldrei hafa verið jafn útbreidda og nú. Á hinn bóginn sé orðið erfiðara fyrir ljósmyndara að fá styrki fyrir verkefni sem taki lengri tíma; allt þurfi að gerast hratt og strax. 
Fréttablaðið/Stefán
Femke van der Welk, fulltrúi World Press Photo segir ljósmyndina aldrei hafa verið jafn útbreidda og nú. Á hinn bóginn sé orðið erfiðara fyrir ljósmyndara að fá styrki fyrir verkefni sem taki lengri tíma; allt þurfi að gerast hratt og strax. Fréttablaðið/Stefán
Ljósmyndasýningin World Press Photo verður opnuð í Kringlunni í dag. Þar verða til sýnis verðlaunamyndir í þessari viðamestu fréttaljósmyndakeppni heims.

Ljósmyndasýningar World Press Photo (WPP) hafa verið árlegur viðburður á Íslandi síðan 1984, að síðastliðnum tveimur árum undanskildum. WPP stendur að viðamestu fréttaljósmyndasamkeppni heims á hverju ári. Alls sendi 5.691 ljósmyndari frá 125 löndum 108.059 myndir í keppnina í ár. Dómnefnd skipuð atvinnuljósmyndurum velur bestu myndirnar sem sýndar eru á sýningum á borð við þá í Kringlunni víðs vegar um heim.

„Það mæðir mikið á dómnefndinni, eins og þú getur rétt ímyndað þér," segir Femke van der Valk, fulltrúi WPP, sem er á Íslandi í tilefni af sýningunni sem opnar í Kringlunni klukkan 17.30 í dag.

WPP eru sjálfstæð samtök sem voru stofnuð í Hollandi 1955 með það að markmiði að styðja við og kynna störf fréttaljósmyndara á alþjóðlegum vettvangi.

Spurð út í stöðu fréttaljósmyndunar segir van der Valk ýmsa kosti og galla.

„Myndin hefur aldrei verið jafn útbreidd og nú til dags; ljósmyndir og myndbönd eru ráðandi miðlar á 21. öldinni. Að því leyti er staða fréttaljósmyndunar sterk. Á hinn bóginn lifum við á tíma hraða og tímaskorts. Það er erfiðara að fá styrki til verkefna sem taka langan tíma á sviði fréttaljósmyndunar en fyrir nokkrum árum. Að sama skappi eru ótrúlega margir skapandi ljósmyndarar að störfum í dag, eins og sýningin ber vitni um."

Jón Gnarr borgarstjóri opnar sýninguna í Kringlunni formlega klukkan 17.30 í dag. Canon og TNT kosta World Press Photo um allan heim. Að sýningunni hér á landi standa Kringlan, Fréttablaðið, Nýherji og auglýsingastofan Jónsson & Le'macks. Í tengslum við WPPefna Nýherji, Kringlan og Blaðaljósmyndarafélag Íslands til ljósmyndasamkeppni fyrir íslenska blaðaljósmyndara.

Nánari upplýsingar á www.pressphoto.is.

bergsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×