„Mér líður ógeðslega illa - persónan sem ég var er bara horfin," sagði Guðlaug Matthildur Rögnvaldsdóttir, unnusta Hannesar Þórs Helgasonar, við vitnaleiðslur í héraðsdómi í morgun. Guðlaug Matthildur, sem kölluð er Hildur, var niðurlút þegar hún gekk inn í dómssalinn.
Hún sagði að aðkoman þegar að hún gekk inn á heimili þeirra Hannesar eftir að morðið var framið sé föst í huga sér. Hún eigi erfitt með svefn og hafi lítið getað borðað eftir morðið. Hún segist hafa hætt í skóla vegna morðsins og hafi ekki getað fengið af sér að vinna vegna þess að hún sofi svo lítið. Sér þyki óþægilegt að vera í kringum marga.
Hildur var spurð að því hvernig hún hefði brugðist við þegar að Gunnar Rúnar setti ástarjátningu frá sér á YouTube. „Ég talaði ekki við hann í langan tíma því mér fannst það svo skrýtið ," sagði Hildur þá. Síðan hafi hún hugsað með sér að svona væri Gunnar Rúnar bara. Hún hafi því ákveðið að taka hann í sátt, en sagt honum að taka myndskeiðið af netinu.
Hildur sagði að Gunnar Rúnar hefði yfirleitt átt frumkvæði að samskiptum þeirra tveggja. En þó hafi komið fyrir að hún hafi átt frumkvæði að samskiptum þeirra. „Ég hélt að hann væri félagi minn," sagði hún. Eftir réttarhöldin gekk Hildur niðurlút að dyrum réttarsalarins. Henni var þá boðið að fara út úr salnum í gegnum hliðardyr sem hún þáði.