Íslenski boltinn

Eyjastúlkur áfram með fullt hús og hreint mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvalsdóttir.
Berglind Björg Þorvalsdóttir. Mynd/Anton
Nýliðar ÍBV héldu áfram sigurgöngu sinni í Pepsi-deild kvenna með því að vinna 2-0 sigur á hinum nýliðunum í Þrótti. Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði bæði mörkin og hefur því skorað 4 mörk í fyrstu 4 umferðunum á sínu fyrsta tímabili á æskuslóðunum.

Eyjaliðið hefur unnið alla fjóra leiki sína í sumar með markatölunni 14-0 og Birna Berg Haraldsdóttir, 17 ára markvörður ÍBV, á enn eftir að fá á sig mark í sumar.

Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði mörkin sín á 16. og 49. mínútu leiksins. Berglind Björg er úr Eyjum en hefur spilað með Breiðabliki undanfarin ár. Það er greinilegt að hún kann vel við sig á heimaslóðunum en 3 af 4 marka hennar í sumar hafa komið á Hásteinsvellinum.

ÍBV vann 5-0 sigur á Þór/KA og Aftureldingu í fyrstu tveimur umferðunum og fylgdi því síðan eftir með því að vinna 2-0 sigur á Breiðabliki í Kópavogi í síðustu umferð. Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, er að gera frábæra hluti með Eyjaliðið sem mætir næst Stjörnunni í toppslag í Garðabænum.

Upplýsingar um markaskorara er fengnar af vefsíðunni fótbolti.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×