Innlent

Sprækir kópar í selalauginni

Þrír sprækir kópar fylgja nú mæðrum sínum í selalauginni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Allar þrjár landselsurtur garðsins hafa nú kæpt. „Móðurástin er mjög áberandi hjá urtum sem láta vel að kópum sínum og gefa þeim orkuríka mjólk fyrstu fjórar til sex vikurnar," segir í tilkynningu.

„Eftir þann tíma bíta urturnar kópana frá sér og þurfa þeir upp frá því að bjarga sér sjálfir. Sjálfstætt líf getur reynst þeim erfitt en það getur liðið rúmur mánuður áður en þeir fara að taka fasta fæðu. Líkt og aðrar mæður verja urturnar kópa sína vel og því beinir starfsfólk því til gesta að reyna ekki að klappa selunum eða snerta þá," segir ennfremur.

Töluverður gestagangur hefur verið í garðinum fyrstu viku sumaropnunar en opið er frá 10 til 18 alla daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×