Innlent

Bók Björns uppseld hjá útgefanda - 1500 eintök í fyrstu prentun

Erla Hlynsdóttir skrifar
Bók Björns Bjarnasonar trónar á toppi metsölulista Eymundsson, aðra vikuna í röð
Bók Björns Bjarnasonar trónar á toppi metsölulista Eymundsson, aðra vikuna í röð
Fyrsta prentun af bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, er uppseld hjá útgefanda. Jakob F. Ásgeirsson, útgefandi bókafélagsins Uglu, segir að við fyrstu atrennu hafi verið prentuð 1500 eintök af bókinni. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að prenta fleiri eintök og býst hann við að álíka fjöldi verði í annarri prentun.

„Salan hefur gengið alveg skínandi vel. Mér finnst það sérstaklega gleðilegt og vona að salan sé til marks um að fólk sé að ná áttum í þessu máli," segir Jakob og á þar við Baugsmálið svonefnda. Hann segist ekki hafa vitað við hverju hann ætti að búast þegar hann ákvað að gefa út bókina, enda erfitt að segja til fyrirfram hversu vel bækur seljast. Hann er því ánægður með viðtökurnar.

Sem kunnugt er tókust  Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, og eigendur Baugs, feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, harkalega á vegna Baugsmálsins í ræðu og riti.

Jakob hefur þó ekki áhyggjur af því að í bókinni sé aðeins birt ein hlið málsins. „Þeir sem skoða bókina sjá að þetta er byggt á opinberum heimildum. Auðvitað leggur hann út af sumu með sínum hætti. Fyrst og fremst er hann samt að draga saman efnisatriði í þessu stóra máli," segir Jakob.

Spurður hvort Rosabaugur yfir Íslandi sé mest selda bók Uglu á árinu segir Jakob að hún slagi nú þegar hátt upp í þá vinsælustu, Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick þar sem flóttamenn frá Norður-Kóreu lýsa reynslu sinni.

Bók Björns er enn til í bókabúðum en Jakob vonast til að fá aðra prentun í hendur um miðjan mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×