Innlent

Notkun sýklalyfja veldur áhyggjum

„Full ástæða er til að hafa áhyggjur af notkun sýklalyfja hérlendis og fylgjast vel með þróuninni,“ segir Guðbjartur.
„Full ástæða er til að hafa áhyggjur af notkun sýklalyfja hérlendis og fylgjast vel með þróuninni,“ segir Guðbjartur. Mynd/Pjetur
Velferðarráðherra segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af notkun sýklalyfja hér á landi. Fyrir tveimur árum var sala á sýklalyfjum á Íslandi 50% meiri en í Svíþjóð, 20% meiri en í Danmörku og 12% meiri en í Noregi. Salan var áþekk hér á landi og í Finnlandi.

Þetta segir Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um sýklalyfjanotkun.  Ein skýring á útbreiðslu ónæmisins er mikil notkun sýklalyfja. Guðbjartur segir skynsamlega notkun sýklalyfja afar nauðsynlegan þátt í baráttunni við útbreiðslu ónæmra sýkla.

Hér á landi er það lögum samkvæmt hlutverk sóttvarnalæknis að fylgjast með notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis. Fram kemur í svari Guðbjarts að sýklalyfjagrunnur hafi nýlega verið tekinn í gagnið og gefi hann áreiðanlegar upplýsingar um ávísanir á sýklalyf og auknar upplýsingar um heildarnotkun sýklalyfja. Einnig sé fylgst vel með notkun sýklalyfja á stofnunum. Þá hefur ráðherrann skipað nefnd um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi til að vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til að hindra myndun ónæmis.

Að auki segir Guðbjartur að náið samstarf sé milli heilbrigðisyfirvalda her á landi og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins um skynsamlega notkun sýklalyfja og baráttuna við að halda sýklalyfjaónæmi í skefjum.

„Öllum er ljóst að notkun sýklalyfja hefur valdið byltingu í meðferð alvarlegra og lífshættulegra sjúkdóma. Hins vegar lærðist mönnum fljótt að notkun sýklalyfja gat leitt af sér ónæmi og þol sýklanna fyrir lyfjunum. Þetta hefur leitt af sér að margar bakteríur eru nú orðnar vel þolnar gagnvart sýklalyfjum þannig að fólk hefur um færri lyf að velja,“ segir Guðbjartur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×