Skoðun

Frá leikskólakennara

Steinunn Sigurgeirsdóttir skrifar
Ég er leikskólakennari í Kópavogi og ég er með tveggja ára gömul börn á deild.

Í vinnunni minni eru verðandi verkfræðingar, augnlæknar, sjómenn, matráðar, prófessorar, einkaþjálfarar, snyrtifræðingar og svo mætti lengi telja. Í vinnunni minni fá þau umönnun, umhyggju, fræðslu og þann fróðleik sem þau nýta sér svo til að taka þátt í lífinu. Þau eru nú þegar byrjuð að taka þátt í þjóðfélaginu sem yngstu þegnar þess og við leikskólakennarar stöndum vörð um þessi börn, þeirra þátttöku og þeirra rétt.

Ég er sérfræðingur í því að vinna með börn, ég vinn með félagsþroska, félagsfærni, greiningar á þroska og hegðun, hreyfigetu og síðast en ekki síst almenna vellíðan, siðferðisvit og kærleika. Ég er tengiliður við aðra sérfræðinga svo sem sálfræðinga, talmeinafræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa. Ég vinn með helstu sérfræðingum barnanna sem eru foreldrar þeirra og í sameiningu vinnum við með lítinn einstakling sem er að læra á lífið.

Fyrir 8 tíma vinnu fæ ég 190.000 krónur útborgaðar á mánuði. Eftir 3 ár í háskólanámi, 4 ár í vinnu og 29 ára lífaldur. Ég get ekki unnið mér inn yfirvinnu því það er verið að spara. Ég sit alla fundi í vinnutímanum og vinn undirbúninginn minn stundum heima því það er ekki alltaf nægur tími eða aðstæður til að gera allt sem þarf að gera.

Deildarstjórinn minn er orðin fertug og hækkar ekki meira í launum því í okkar kjarasamningum eru engar launahækkanir eftir fertugt. Þar sem hún er deildarstjóri nú þegar er því enginn möguleiki fyrir hana að fá nokkur hlunnindi eða hækka í launum – hún er bara fertug!

Samstarfskona mín sem er leiðbeinandi fær 140.000 krónur útborgaðar fyrir 80% vinnu og öll þau námskeið sem hún getur mögulega tekið. Þar sem hún er einstæð með tvö börn þá borgar það sig ekki fyrir hana að vinna meira því þá fer það allt í skattinn og hún þarf að borga meira í vistun fyrir börnin. Hún er næstum því að borga með sér því það væri hagstæðara fyrir hana að vera á atvinnuleysisbótum og vera heima þegar börnin eru búin í skólanum.

Ég er leikskólakennari og er stolt af því en mikið væri ég til í að vera metin að verðleikum og fá borgað í samræmi við þá vinnu sem ég vinn. Kjarasamningar við leikskólakennara eru lausir og búnir að vera það síðan 2009, kosið verður um verkfall á næstu vikum.




Skoðun

Sjá meira


×