Innlent

Stefna á ferðatengda læknisþjónustu

Magnús Stefánsson framkvæmdastjóri Nordic Health Pro
Magnús Stefánsson framkvæmdastjóri Nordic Health Pro
Hópur íslenskra lækna hefur stofnað fyrirtæki sem hyggst selja íslenska heilbrigðisþjónustu til erlendra ferðamanna og bjóða uppá skurðaðgerðir hér á landi gegn greiðslu. Framkvæmdastjórinn segir ferðatengda læknisþjónustu vera ört stækkandi geira út í heimi og bjóða upp á mörg sóknarfæri.

Hópur íslenskra lækna sem starfar hér á landi og í Svíþjóð hefur sett á fót fyrirtækið Nordic Health Pro. Fyrirtækið sem enn er í undirbúningi myndi miðla íslenskri læknisþjónustu til erlendra ferðamanna. Magnús Stefánsson framkvæmdastjóri Nordic Health Pro og fyrrverandi félagsmálaráðherra segir ferðatengda læknisþjónustu vaxandi iðnað út í heimi.

„Það eru auðvitað ýmis læknisþjónusta sem boðið er upp á hér. Ég nefni dæmi eins og lýtaaðgerðir, æðahnútaaðgerðir og ýmsar svona smáaðgerðir. Það er líka kostur að bjóða upp á stærri aðgerðir og fleira þannig að það er ýmislegt í boði," segir Magnús.

Það tíðkist erlendis að fólk fari til annarra landa og leiti sér læknisþjónustu sem það borgi fyrir.

Magnús segir að íslensk heilbrigðisþjónusta sé vel metin erlendis og sóknarfærin mörg hér á landi. Auk þess sé svona starfsemi gjaldeyrisskapandi.

„Það er ónýtt afkastageta í þjónustunni hér á Íslandi og ÍSland er í raun og veru eftirsóttur ferðamannastaður og þetta yrði í raun ferðatengd læknisþjónusta."

Verð á aðgerðum á íslenskum aðgerðum sé mun lægra en til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi.

„Ég vil taka það fram að okkar markmið er auðvitað það að þetta eigi ekki að koma niður á þjónustu við Íslendinga. Þetta yrði í raun og veru bara viðbót," segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×