Innlent

Komu í veg fyrir spriklandi þorska í Smáralind

Fjalar ásamt félaga sínum að huga að búrinu.
Fjalar ásamt félaga sínum að huga að búrinu.
Gestum í Smáralind brá heldur betur í brún í gær þegar að sprunga kom í risastórt fiskabúr í Smáralind og vatn flæddi um Vetrargarðinn. Sýningin Heilsa og hamingja er haldin um helgina í Smáralindinni og var fiskabúrið hluti af sýningunni.

Fjalar Sigurðsson, sýningarhaldari, segir að upp úr þurru hafi komið sprunga í fiskabúrið en í því voru fjórir stórir þorskar. „Vatnið byrjaði að buna út á gólf og menn gripu þá í ker sem var þarna rétt hjá. Það var fullt af eplum og kerið var tæmt og svo var bara byrjað að tæma fiskabúrið,“ segir Fjalar en á sama tíma og búrið var tæmt þá voru þorskarnir veiddir upp úr.

Vel gekk að tæma búrið og þegar glerið gaf sig endanlega var búið að ná öllum þorskunum upp úr. „Það voru því ekki spriklandi þorskar á gólfinu í Smáralind,“ segir Fjalar léttur.

Ekkert tjón varð af vatninu en það var hreinsað í rólegheitum eftir að sýningunni lauk.

Sýningunni lýkur í dag klukkan fimm en á henni eru fjöldinn allur af fyrirtækjum að sýna vörur sína. Nóg að smakka, skoða og prófa, segir Fjalar sem hvetur fólk að kíkja á sýninguna.

Hægt er að skoða Facebooksíðu sýningarinnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×