Handbolti

Guðfinnur: Verkefnið getur ekki verið auðveldara

Henry Birgir Gunnarsson í Digranesi skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Mynd/Valli
"Við byrjuðum illa og það voru vandræði á sóknarleiknum. Við erum ekki að taka réttar ákvarðanir og alls ekki þær auðveldustu," sagði Guðfinnur Kristmannsson, þjálfari Gróttu, eftir 25-22 tap gegn HK í N1-deild karla í kvöld.

Það átti enginn von á því að Grótta myndi gera nokkurn skapaðan hlut í vetur en liðið náði samt jafntefli gegn Val í fyrsta leik og veitti HK ágætis keppni í kvöld.

"Það er sterkur karakter í þessu liði sem endurspeglast í því að við gefumst aldrei upp," sagði Guðfinnur en hvernig er að vinna með lið sem enginn býst við neinu af?

"Þetta getur ekki verið auðveldara. Leiðin getur bara legið upp á við," sagði Guðfinnur og hló við. "Það gengur vel að vinna með strákunum. Ég varaði þá við því að okkur yrði spáð neðstum og bjó þá undir að fjölmiðlaumfjöllun yrði á þann veg.

"Við vitum samt hvað við getum. Þetta var til að mynda sárt í kvöld því við áttum fullan möguleika í þessum leik. Það vantaði kannski trúna hjá okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×