Innlent

Hjartveiku börnin fá ekki borgað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson var stjórnarformaður Landsbankans þegar samningurinn var gerður.
Björgólfur Guðmundsson var stjórnarformaður Landsbankans þegar samningurinn var gerður.
Máli Styrktarsjóðs hjartveikra barna gegn Landsbankanum og Landsvaka var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir jól. Styrktarsjóðurinn stefndi Landsbankanum og dótturfélagi hans Landsvaka, sem sér um rekstur verðbréfa- og fjárfestingasjóða, haustið 2009. Ástæðan er sú að við fall Landsbankans var sjóðum Landsvaka slitið og við það rýrnaði eign Styrktarsjóðs hjartveikra barna um 21 milljón. Í stefnunni krafðist sjóðurinn því að Landsbankinn og Landsvaki bættu félaginu upp þá fjármuni sem glötuðust.

Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að málið hefði verið vanreifað og vísaði máli sínu til stuðnings til úrskurðar Hæstaréttar sem hafði áður vísað málum einstaklinga gegn Landsvaka og Landsbankanum frá dómi. Jóhann Hafstein lögmaður hjá Ergo lögmönnum, sem hefur rekið mál Styrktarsjóðs hjartveikra barna, er ósáttur við úrskurðinn. Hann segir málin sem Hæstiréttur úrskurðaði í vera eðlisólík máli Styrktarsjóðs hjartveikra barna.

Jóhann segir að mál Styrktarsjóðs hjartveikra barna snúist um það hvort Landsbankinn hafi brotið eignastýringasamning sem gerður var við Styrktarsjóðinn með því að hafa peningamarkaðssjóði Landsvaka inni í eignasafni Styrktarsjóðsins. Hin málin snúist hins vegar um það hvort Landsvaki hafi fjárfest í samræmi við heimildir og hvort markaðssetning peningamarkaðssjóðsins hafi verið rétt.  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur hefur verið kærður til Hæstaréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×