Innlent

RÚV vill kaupa sýningarréttinn að HM af 365

Ríkisútvarpið hefur gert 365 miðlum tilboð þess efnis að RÚV kaupi sýningarréttinn að HM í handbolta af 365 á sama verði og greitt var fyrir réttinn á sínum tíma. Í bréfi sem Páll Magnússon útvarpsstjóri sendi Ara Edwald forstjóra 365 í dag segir að þetta sé gert vegna „vaxandi óánægju í þjóðfélaginu" með að HM verði í læstri dagskrá að mestu.

Í tilboðinu felst að RÚV kaupi réttinn á sama verði eins og áður sagði auk þess sem 20 prósenta álag verði sett á kaupverðið til þess að bæta 365 undirbúningskostnað af ýmsu tagi. Þá skuldbindur RÚV sig til þess að virða alla samninga sem 365 hefur gert við þriðja aðila, svo sem kostendur og auglýsendur, „eða endursemja við þá eftir atvikum"

365 yrði einnig heimilt að sýna alla leikina á HM samhliða RÚV og vinna úr útsendingum allt ítarefni.

Í lokin segir Páll í bréfinu að hann óski eftir svari eða gagntilboði frá 365, ekki síðar en klukkan fimm á morgun föstudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×