Innlent

Tæpur milljarður í sektir hjá Samkeppniseftirlitinu

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftrlitsins
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftrlitsins
Á árinu 2010 sektaði Samkeppniseftirlitið níu aðila um samtals tæpan milljarð króna í fimm málum. Af þessum níu aðilum voru sjö sektaðir vegna ólögmæts samráðs, einn fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu og einn fyrir brot á tilkynningaskyldu vegna samruna.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Samkeppniseftirlitsins sem var birt í dag.

Hæsta sektin, 400 milljónir króna, var lögð á Skiptasamstæðuna vegna rannsóknar á ólögmætu samráði milli Tæknivara ehf., dótturfélags Skipta, og Hátækni ehf., á heildsölumarkaði fyrir sölu á farsímum. Í kjölfar húsleita í apríl og maí síðastliðinum sneru Skipti sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir að veita liðsinni við rannsókn málsins. Var málinu í framhaldinu lokið með sátt gagnvart Skiptasamstæðunni, en málið gagnvart Hátækni er enn til meðferðar.

Þá sektaði Samkeppniseftirlitið Haga hf. og fimm kjötvinnslufyrirtæki um samtals rúmar 400 milljónir króna vegna samkeppnishamlandi samstarfs.

Á fyrri hluta ársins var fyrirtækið Lyf og heilsa hf. sektað um 130 milljónir króna, en fyrirtækið var talið hafa misnotað markaðsráðandi stöðu með aðgerðum sem höfðu það að markmiði að hindra að nýr keppinautur í lyfsölu á Akranesi næði fótfestu á markaðnum. Lyf og heilsa kærðu ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem taðfesti brotin en lækkaði sektirnar um 30 milljónir króna.

Gripið inn í 15 samruna



Á árinu 2010 tók Samkeppniseftirlitið rúmlega 23 ákvarðanir í samrunamálum samanborið við 24 ákvarðanir á árinu 2009. Langflestir samrunanna vörðuðu yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum. Setti Samkeppniseftirlitið 15 þessara samruna ítarleg skilyrði sem nánar er fjallað um annars staðar í ársriti þessu.

Fjórar húsleitir

Samkeppniseftirlitið framkvæmdi fjórar húsleitir á árinu 2010. Ein húsleitanna varðar grun um misnotkun á markaðsráðandi stöðu og þrjár þeirra grun um ólögmætt samráð.

Mörg mál fyrir áfrýjunarnefnd og dómstólum

Talsvert er látið reyna á málsmeðferð og ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Á árinu 2010 féllu 13 úrskurðir í áfrýjunarnefnd samkeppnismála, auk þess sem 10 mál voru til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur eða Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×