Lífið

Hljómsveitin Ég semur HM-lag fyrir landsliðið

Róbert Örn Hjálmtýsson í hljómsveitinni Ég hefur samið HM-lag fyrir íslenska landsliðið. Hann á sjálfur „glæstan“ feril að baki í handboltanum með ÍR. Fréttablaðið/Anton
Róbert Örn Hjálmtýsson í hljómsveitinni Ég hefur samið HM-lag fyrir íslenska landsliðið. Hann á sjálfur „glæstan“ feril að baki í handboltanum með ÍR. Fréttablaðið/Anton
„Ég er búinn að semja lagið og það verður frumflutt í þættinum hans Loga Bergmanns á föstudagskvöldið,“ segir Róbert Örn Hjálmtýsson, forsprakki hljómsveitarinnar Ég. Hann hefur samið nýtt lag fyrir íslenska landsliðið í handbolta sem á að blása strákunum okkar baráttuanda í brjóst þegar þeir leika fyrir hönd þjóðarinnar í Svíþjóð.

Róbert segir lagið vera samið af þekkingu um íþróttina en sjálfur á hann „glæstan“ feril að baki í íþróttinni. En fyrst að laginu. Róbert veit ekki hvort það sé hægt að lýsa laginu sem stuðlagi en síðasta lag landsliðsins, Gerum betur, var vissulega stuðlag enda eftir Stuðmanninn Valgeir Guðjónsson. „Lagið er eins og að spila handbolta, það er „aggressívt með mikilli snilld í, gítarsólóum og öðru slíku,“ útskýrir Róbert.

Í textanum vildi hann svo ausa úr sínum viskubrunni; það sé til að mynda gott að vippa yfir markmanninn því þá fari hann úr stuði. „Og svo vildi ég útskýra fyrir mönnum hvað samskeytin eru og að vörnin er besta sóknin. Þetta er svona attitjúd-lag um hvernig maður eigi að vinna handboltaleik; að berja á andstæðingnum og vera snjall.“

Róbert á sjálfur leynda fortíð í handboltanum. Hann var liðsmaður feikiöflugs ÍR-liðs í yngri flokkunum sem varð Íslandsmeistari á sínum tíma en þar mátti finna kempur á borð við Sverri Þór Sverrisson, Sveppa, og Ólaf Örn Josephsson, betur þekktan sem Stafrænan Hákon, fyrrverandi landsliðsmanninn Ragnar Óskarsson og núverandi silfurdreng, Ingimund Ingimundarson.

„Ingimundur var svona tröllabarn. Og ég spilaði einmitt áramótaleik um daginn á móti honum með ÍR um daginn og þá komst ég að því að hann er ómennskur. Ég er ansi hræddur um að hann sé búinn til inni á einhverri tilraunastofu.“

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.