Innlent

Kísilver í sjónmáli á Suðurnesjum

Samningaviðræður um kísilverksmiðju í Helguvík eru á lokastigi og er nú vonast til ákveðið verði fyrir lok mánaðarins að hefja framkvæmdir í vor. Um 150 manns fengju vinnu við smíðina næstu tvö ár en síðan yrðu til 90 framtíðarstörf í verksmiðjunni.

Íslenska kísilfélagið, eða Icelandic Silicon Corporation, hefur undirbúið verksmiðjuna í fjögur ár en gert er ráð fyrir að hún rísi við höfnina í Helguvík, á lóð sem búið er að sprengja þar oní klöppina og slétta. Bandarískt fyrirtæki er aðalfjárfestirinn en nafn hans hefur ekki verið gert opinbert.

Verksmiðjunni er ætlað að framleiða í tveimur ofnum fimmtíu þúsund tonn af hrákísil á ári, en sú vara er einkum seld til verksmiðja sem framleiða sólarrafhlöður. Öll leyfi liggja fyrir og ríkir nú bjartsýni um að á næstu tveimur til þremur vikum takist að ljúka orkusamningum og fjárfestingarsamningi og að unnt verði að tilkynna í kringum næstu mánaðamót að framkvæmdir hefjist í vor.

Fyrir samfélagið á Suðurnesjum, sem býr við mesta atvinnuleysi á landinu, yrðu þetta kærkomnar fréttir en áætlað er að 150 manns fái vinnu við smíði verksmiðjunnar í tvö ár, en síðan yrðu þar 90 störf til frambúðar. Kísilverið þarf drjúga raforku, um 65 megavött, og er gert ráð fyrir að hún komi bæði frá Landsvirkjun og HS Orku, og fyrstu tvö árin í jöfnum hlutföllum.

Orkusamningarnir eru viðkvæmasti þátturinn þar sem þeir þrengja að möguleikum Norðuráls til að afla orku til álversins sem það er að reisa í Helguvík. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 verður þó reynt að stilla orkusamningum við kísilverið upp með þeim hætti að Landsvirkjun geti síðar alfarið tekið þá yfir og þannig skapað HS Orku svigrúm til að mæta raforkuþörf álversins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×