Innlent

Geðhjálp: Ölmusumatargjafir eru lítilsvirðandi

Geðhjálp skorar á hjálparstofnanir að taka höndum saman við yfirvöld og móta nýtt fyrirkomulag neyðarstoðar við fátækt fólk í landinu. Í ályktun frá stjórn Geðhjálpar segir að ölmusumatargjafir með tilheyrandi biðröðum séu lítilsvirðandi fyrir það fólk sem þarf á sértækri aðstoð að halda.

„Brýnt er að fundið verði lágmarksframfærsluviðmið sem lífeyrir og lágmarkslaun taki mið af. Fyrir þá sem ekki ná endum saman af einhverjum ástæðum þarf að tryggja að þeir geti sótt sér nauðsynjavörur með sama hætti og aðrir landsmenn en ekki hjá sérstökum hjálparstofnunum," segir í ályktuninni og ennfrmur að það sé hægt að gera með útgáfu sérstakra debetkorta sem aðeins gilda í matvöruverslunum.

„Einnig er mikilvægt að fólki sé boðið upp á námskeið og þjálfun í heimilisbókhaldi."

Þá vekur Geðhjálp athygli á stefnu félagsins um nýskipan í geðheilbrigðismálum þar sem áhersla er lögð á virkt velferðarkerfi. „Í því sambandi er brýnt að nýtt virknimat verði tekið upp hið allra fyrsta í stað núverandi örorkumats. Með því verði áhersla lögð á færni fólks og að byggt sé undir hana í stað þess að horfa einkum til vangetu fólks. Geðhjálp lýsir sig reiðubúið að halda áfram á þeirri vegferð enda eru um 37% öryrkja með geðraskanir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×