Innlent

Krefur Agnesi um afsökunarbeiðni og miskabætur

SB skrifar

Lögmaður Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sendi Agnesi Bragadóttur, blaðamanni Morgunblaðsins, bréf í dag. Í því eru gerðar þær kröfur að Morgunblaðið biðjist afsökunar á fréttaflutningi Morgunblaðsins í dag og einnig að Inga Frey verði greiddar miskabætur.

Ingi Freyr gaf Agnesi og útgefendum blaðsins frest til klukkan fjögur í dag til að bregðast við kröfu hans um afsökunarbeiðni og miskabætur.

Í fréttinni, sem Agnes Bragadóttir skrifar, var haft eftir ónafngreindum vitnum að Ingi Freyr væri með réttarstöðu grunaðs manns í „rannsóknum" lögreglu. Þá er njósnamálið svokallaða á Alþingi og birting á gögnum sem tengjast viðskiptamönnum og talin eru hafa verið stolin af ungum manni sem nú vinni fyrir Wikileaks spyrt saman.

Jafnframt var því haldið fram að Ingi Freyr hefði beðið unga manninn, gegn þóknun, að stela gögnum sem varða Milestone og Eið Smára Guðjohnsen.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við Vísi í morgun að Ingi Freyr hefði ekki réttarstöðu sakbornings í njósnamálinu.

Í bréfinu sem lögmaður Inga Freys sendi Agnesi segir að ummæli Morgunblaðsins séu ærumeiðandi, Ingi Freyr sé bendlaður við brot sem varði sjálft Alþingi og að hafa hvatt ólögráða einstakling til lögbrota. Samkvæmt heimildum Vísis barst ekki svar við bréfinu fyrir klukkan fjögur og verður því að gera ráð fyrir því að málið fari fyrir dómstóla.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, sagði málið ekki á forræði útgáfu blaðsins heldur hjá blaðamanninum sjálfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×