Lífið

Strákarnir sem eiga hugi og hjörtu íslenskra ungmenna

Alexander Briem, Atli Óskar Fjalarsson og Haraldur Ari Stefáns­son eru heitustu drengirnir á Íslandi í dag. Atli Óskar og Haraldur Ari urðu miklir mátar þegar þeir fóru á kostum í unglingamyndinni Óróa sem naut mikilla vinsælda í sumar. Atli Óskar fer með stórt hlutverk í kvikmyndinni Gauragangi sem frumsýnd var á annan í jólum og þar þykir Alexander Briem fara á kostum í hlutverki Orms Óðinssonar.

Það sem gerir þetta enn skemmtilegra er að Alexander og Haraldur eru bestu vinir. „Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini í menntaskóla og vorum svona kunningjar þá. Síðan urðum við bestu vinir þegar við fórum að vinna saman á Karamba,“ segir Haraldur Ari, sem er skráður töframaður í símaskrá og er liðsmaður í Retro Stefson, einni vinsælustu hljómsveit landsins.

Haraldur Ari segist ekki hafa gengið með kvikmyndastjörnudrauminn í maganum en hann á ekki langt að sækja hæfileikana, faðir hans er Stefán Jónsson, prófessor í leiklist við Lista­háskóla Íslands. „Ég var viðloðandi leikhúsin frá barnsaldri og hafði þetta alltaf bak við eyrað. Svo kom þetta hálfpartinn aftan að manni í menntaskóla þegar maður fór að leika með leikfélaginu þar,“ segir Haraldur, sem býst fastlega við því að gera eitthvað meira með leiklistina í framtíðinni. Alexander hefur hins vegar alltaf gengið með þann draum í maganum að verða kvikmyndastjarna og er kominn nokkuð langt á leið með þann draum.

Gauragangur hefur fengið prýðis­góða dóma en Alexander hefur hins vegar enn ekki fengið að kynnast einum af sætum bikurum frægðarinnar, vinabeiðnir frá hinu kyninu á Facebook eru ekki enn orðnar óeðlilega margar. „Ekkert í líkingu við það sem Óróastrákarnir hafa sagt mér, þeir státa af miklu, miklu fleiri. En það er aldrei að vita, kannski stend ég uppi sem lúmskur sigurvegari að lokum.“

freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.