Innlent

Ekki þörf á nýjum stjórnarsáttmála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigurðsson segir að sáttatónn sé í þingmönnum VG. Mynd/ Valli.
Árni Þór Sigurðsson segir að sáttatónn sé í þingmönnum VG. Mynd/ Valli.
Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks VG, segist ánægður með þingflokksfundinn sem haldinn var í kvöld. „Við fórum yfir stöðuna í stjórnmálum og hjá okkur og hvað hefur á dagana drifið ef svo má að orði komast," segir Árni. Ný efnahagsstefna sem taki við þegar AGS fer og Evrópusambandsmál.

Ágreiningur hefur verið innan þingflokks VG um ýmis veigamikil pólitísk mál sem ríkisstjórnin hefur á sínu borði. Aðspurður segist Árni Þór ekki telja að gera þurfi breytingar á stjórnarsáttmála VG og Samfylkingarinnar til að friður komist á innan VG. „Stjórnarsáttmálinn er bara eins og hann er og staðfestur af stofnunum flokkanna. Hins vegar koma alltaf ný og ný viðfangsefni sem ekki er séð fyrir að öllu leyti í stjórnarsáttmála og forsendur breytast. Þannig að það þarf oft að taka mál nýjum tökum og ræða þau á milli flokkanna," segir Árni Þór. Hann segir sameiginlegan vilja á meðal þingmanna VG að stuðla að sátt innan þingflokksins.

Árni Þór segist ekki telja að afstaða manna til Evrópusambandsumsóknar hafi breyst. „Ég held að sú afstaða sem menn tóku þegar greidd voru atkvæði um aðildarumsóknina á Alþingi hafi ekkert breyst innan þingflokksins. Þeir sem studdu þá ákvörðun á grundvelli þess að þeir vildu fá það mál leitt til lykta á grundvelli einhverjar samningsniðurstöðu eru ennþá þeirrar skoðunar. Hinir, sem voru andvígir því að fara í þetta ferli, eru það ennþá. Þannig að ég held að það sé ekki breyting á afstöðu að þessu leyti til," segir Árni Þór

Hann segir hins vegar að umsóknarferlið haldi áfram og sé komið á annan stað núna en þegar farið var af stað með ríkisstjórnina. Núna fari að koma að því að það þurfi að fara að taka ýmsar pólitískar ákvarðanir varðandi samningsafstöðu Íslands í einstökum málaflokkum og annað slíkt. „Þá kemur auðvitað til pólitískrar umræðu bæði á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis. Það var auðvitað alveg fyrir séð og þá kannski skerpast línur varðandi það mál eitthvað," segir Árni.




Tengdar fréttir

Auknar efasemdir um ESB innan VG

„Þetta er náttúrlega upphafsfundur frekar en einhver lokafundur enda eru svona stórmál ekki kláruð á stuttum fundi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, um þingflokksfundinn sem fór fram í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×