Viðskipti innlent

Nýr framkvæmdastjóri fjármála hjá OR

Ingvar Stefánsson
Ingvar Stefánsson
Ingvar Stefánsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Ingvar, sem hefur viðskiptafræðipróf á endurskoðunarsviði auk meistaragráðu í fjármálum og stjórnun, var valinn úr hópi 25 umsækjenda um starfið. Hann stýrir nú Íslandsbanka Fjármögnun og hefur störf hjá OR á næstu vikum.

Ingvar hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu. Hann var starfsmannastjóri hjá Esso í átta ár, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Olíufélagsins í fjögur ár, framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Lyfja og heilsu í tvö ár, kennari við Háskólann á Bifröst í fjármálum, samningatækni, stjórnun og stefnumótun samhliða annarri vinnu og loks framkvæmdastjóri og forstöðumaður Íslandsbanka Fjármögnunar sem er um 40 manna eining innan bankans.

Ingvar er 45 ára gamall, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur matvælafræðingi og eiga þau tvo syni. Hann tekur við starfinu af Inga Jóhannesi Erlingssyni, sem tók tímabundið við starfinu í janúar síðastliðnum. Ingi Jóhannes mun áfram gegna starfi forstöðumanns fjár- og áhættustýringar hjá OR.

Capacent ráðningar höfðu umsjón með ráðningarferlinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×