Innlent

Endurgreiðir ákveði borgin það

Linda Björg Árnadóttir Fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands.
Linda Björg Árnadóttir Fagstjóri fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands.
„Þetta var óheppilega orðað í bréfi mínu til borgarinnar,“ segir Linda Björg Árnadóttir, fagstjóri hönnunardeildar Listaháskóla Íslands, sem verst nú kröfu borgarinnar um að endurgreiða 500 þúsund króna styrk sem hún fékk í fyrra til að skapa farveg fyrir unga fatahönnuði.

Menningarsvið borgarinnar efaðist um að styrkurinn hefði farið í tilætlað verkefni og vildi fá peningana til baka en Linda segir það alrangt og að hún hafi nú sent borginni nauðsynleg gögn um málið. Féð hafi þó ekki endað í Fataversluninni Kiosk, eins og skilja mátti af fyrra bréfi Lindu til borgarinnar. Það bréf hafi verið óheppilega orðað. Hið rétta sé að tvær stúlkur sem tóku þátt í verkefninu sem styrkt var hafi síðan komið að stofnun Kiosk. Sjálf tengist Linda versluninni ekki.

Þá segist Linda hafa varið um 300 klukkustundum af eigin tíma endurgjaldslaust í umrætt verkefni. Hún hafi af óeigingirni reynt af fremsta megni að styðja við bakið á nemendum sínum í fatahönnun.

„Allir þessar peningar og miklu meira til fóru í verkefnið. Þetta mál verður tekið fyrir á næsta fundi menningarráðs. Ef niðurstaðan verður sú að ég eigi að endurgreiða þennan styrk þá geri ég það,“ segir Linda Björg Árnadóttir.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×