Viðskipti erlent

Hótel d´Angleterre lokar fram á næsta ár

Hið sögufræga hótel d´Angleterre verður lokað frá júní í sumar og fram til febrúar á næsta ári. Hinir nýju eigendur hótelsins, sem eitt sinn var í íslenskri eigu, ætla sér að gera verulegar endurbætur á hótelinu.

Fjallað er um málið í Jyllands Posten. Þar segir að eigendur d´Angleterre ætli sér að eyða nokkrum milljörðum kr. í þessar endurbætur. Hinsvegar verði fyrst að ganga frá starfslokasamningum við starfsfólk hótelsins áður en endurbæturnar fara í gang.

Thomas Salicath sem á sæti í stjórn hótelsins hefur staðfest þessar áætlanir hinna nýju eigenda d´Angleterre . Hann segir að fyrst verði að ganga frá málum starfsfólksins en það telur yfir 100 manns.

Með endurbótunum er ætlunin að fækka herbergjum og stækka þau sem fyrir eru. Þannig mun herbergjum hótelsins fækka úr 123 og niður í 85. „Með endurbótunum munum við bjóða upp á færri en stærri svítur á hótelinu,“ segir Salicath.

Aðspurður um hvort endurbæturnar séu gerðar til að selja hótelið í framhaldinu segir Salicath svo ekki vera. Eigendurnir hafi fullan hug á að halda rekstrinum áfram eftir febrúar á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×