Lífið

Jack Black tekur við Næturvaktinni í Hollywood

Vaktagengið hefur grínast með það að ef einhver Hollywood-stjarna ætti að leika Pétur Jóhann þá væri það Jack Black.
Vaktagengið hefur grínast með það að ef einhver Hollywood-stjarna ætti að leika Pétur Jóhann þá væri það Jack Black.
„Þetta hljómar vel. Ég hafði reyndar ekki heyrt af þessu. Maður hætti að fylgjast með þessu eftir síðasta pilot-tímabil," segir Ragnar Bragason leikstjóri.

Ævintýri Næturvaktarinnar í Ameríku virðist síður en svo lokið. Gamanleikarinn Jack Black og framleiðslufyrirtæki hans, Electric Dynamite, hefur nú tekið þá Georg, Ólaf Ragnar og Daníel að sér. Black og hans menn ætla að þróa handrit eftir Næturvaktinni fyrir Saga Film og bandaríska framleiðslufyrirtækið Reveille sem á endurgerðarréttinn í Bandaríkjunum.

Handritshöfundinum Michael Diliberti hefur verið falið að vinna nýtt handrit upp úr þáttunum en hann á heiðurinn að handriti myndarinnar 30 Minutes or Less sem skartar Jesse Eisenberg úr Social Network í aðalhlutverki.

Ragnar, sem vinnur nú að nýrri sjónvarpsþáttaröð fyrir Stöð 2, segir að það yrði vissulega mikið fagnaðarefni ef ráðist yrði í gerð amerísku útgáfunnar af Næturvaktinni. „Þetta er hins vegar allt svo flókið í Bandaríkjunum, svo mikið bákn og langar leiðir sem þarf að fara."

Eitt og hálft ár er liðið síðan fréttir bárust af landvinningum Næturvaktarinnar í Bandaríkjunum. Fox-sjónvarpsstöðin keypti sýningarréttinn að endurgerðinni og handritshöfundurinn Adam Barr skrifaði handrit að svokölluðum „prufu-þætti" eða pilot sem notaður er til að sjá hvort viðkomandi efni hentar fyrir sjónvarp eða ekki. Og það fór svo að stjórnendur Fox ákváðu að ráðast ekki í gerð prufu-þáttarins.

Jack Black gerði samning við Reveille í apríl á þessu ári um að hann kæmi með hugmyndir að gaman-, raunveruleika- og teiknimyndaþáttum fyrir sjónvarp og leikarinn virðist hafa fallið fyrir íslenska gríninu sem hreif þjóðina með sér á sínum tíma. Ragnar kveðst vera hrifinn af Jack Black og segir hann ekki ókunnugan Næturvaktar-hópnum.

„Við höfum oft grínast með það í gegnum tíðina að ef einhver Hollywood-stjarna ætti að leika Pétur Jóhann þá væri það hann."

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.