Viðskipti innlent

ÍAV náði 9 milljarða samningi í Noregi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslenskir aðalverktakar eru á leið til Noregs. Mynd/ Vilhelm.
Íslenskir aðalverktakar eru á leið til Noregs. Mynd/ Vilhelm.
Íslenskir aðalverktakar og verktakafyrirtækið Marti munu á miðvikudag í næstu viku skrifa undir samning um gerð járnbrautaganga við Holmestrand í Noregi. „Við skrifum undir í næstu viku og undirbúningur mun hefjast í kjölfarið,“ segir Karl Þráinsson, forstjóri ÍAV, í samtali við Vísi. Þetta er fyrsta verkefnið sem ÍAV mun vinna í Noregi að hans sögn.

Holmestrand er við Oslóarfjörðinn vestanverðan um 80 kílómetrum suður af Osló. Þetta er fyrsta verkefni sem Íslenskir aðalverktakar vinna í Noregi, að sögn Karls Þráinssonar forstjóra fyrirtækisins.

Fram kemur á vef Íslenskra aðalverktaka að verkið felist í gerð um 2 kílómetra jarðganga fyrir hraðlestar og sé um að ræða einn áfanga af sex. Verkið fór af stað í fyrra með tveimur útboðum sem ÍAV tók þátt í ásamt Marti en enn á eftir að bjóða út tvo áfanga verksins.

Tilboðsupphæð ÍAV/Marti hljóðaði upp á 414 milljónir norskra króna eða um 8,5 milljörðum íslenskra króna án virðisaukaskatts á gengi dagsins í dag.

Karl segir að áætlanir geri ráð fyrir fyrstu sprengingu í jarðgöngunum í byrjun ágúst og verklok eru áætluð í júní 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×