Lífið

Blautt myndband um Las Vegas-steggjun Vilhjálms prins

Nú þegar styttist í brúðkaup Vilhjálms prins og Kate Middleton fylgjast fjölmargir spenntir með því hvernig steggja- og gæsaveislur þeirra fara fram.

Einn þeirra er rapparinn Snoop Dogg, sem er með háleitar hugmyndir um steggjun Vilhjálms, eins og sést í nýju myndbandi við lagið Wet, sem hann tileinkar prinsinum.

Þetta gerir hann vegna fréttar breska götublaðsins The Mirror þar sem kom fram að Harry prins vildi að Snoop kæmi fram í steggjun bróður síns ásamt breska rapparanum Tinie Tempah.

Snoop kann að nýta sér athygli fjölmiðla og greip frásögnina að sjálfsögðu á lofti. „Konungsfjölskyldan vill að ég komi fram í tilefni af brúðkaupi prinsins. Ég tileinka honum því þetta lag en það er fullkomið fyrir hann, eða hvaða spaða sem er, til að rúlla partíinu upp.“

„Drífðu þig upp í vél og yfir til Vegas. Ég er búinn að græja þetta. Hér er fullt af dömum og allt tilbúið,“ segir Snoop nokkurn veginn við prinsinn í upphafi myndbandsins. Í kjölfarið mæta William og Harry í veisluna til Snoop og dansa við tugi bíkínibomba að steggja sið.

Óvíst er hvort þetta útspil Snoop tryggi honum stað í steggjapartí prinsins en lagið verður á næstu plötu hans, Doggumentary Music, sem kemur út í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.