Innlent

Íslensk auglýsing komin í úrslit

Please Don‘t treat us like trash Auglýsing Elsu Nielsen hjá Ennemm er komin í úrslit í auglýsingakeppni SÞ.mynd/SÞ
Please Don‘t treat us like trash Auglýsing Elsu Nielsen hjá Ennemm er komin í úrslit í auglýsingakeppni SÞ.mynd/SÞ
Íslensk auglýsing er í hópi þrjátíu sem valdar hafa verið í úrslit í auglýsingasamkeppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu um bestu auglýsinguna gegn ofbeldi gegn konum. Alls bárust rúmlega tvö þúsund og sjö hundruð auglýsingar frá 40 löndum. Höfundur íslensku auglýsingarinnar er Elsa Nielsen, grafískur hönnuður á Ennemm auglýsingastofunni.

Í tilkynningu frá Árna Snævarr, upplýsingafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og einum af stjórnendum keppninnar, kemur fram að dómnefnd, undir forystu auglýsingamannsins Jacques Séguela, sem er einn af þekktustu auglýsingamönnum Frakklands, velur sigurvegara úr hópi þrjátíu efstu auglýsinganna sem eru frá fimmtán löndum og verða úrslit tilkynnt í október.

„Það er auðvitað sérstaklega ánægjulegt fyrir mig sem Íslending sem vinn fyrir Sameinuðu þjóðirnar, hve löndum mínum gengur vel, en ég held að þetta sýni fyrst og fremst styrk grafískrar hönnunar á Íslandi og hve mjög málefnið brennur á Íslendingum,“ segir Árni Snævarr.

Stefán Einarsson, hönnunarstjóri Hvíta hússins, sigraði í sömu keppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu í fyrra en þá var þemað baráttan gegn fátækt í heiminum.

Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel stendur fyrir keppninni ásamt UN Women og meðal annars með stuðningi Fréttablaðsins og Vísis.is.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×