Innlent

Reykjavíkurmaraþonið í fullum gangi

Þrjú þúsund hlaupagarpar voru ræstir á Lækjargötu klukkan 8:40 í morgun.
Þrjú þúsund hlaupagarpar voru ræstir á Lækjargötu klukkan 8:40 í morgun.
Tæplega þrjú þúsund hlauparar voru ræstir við útibú Íslandsbanka við Lækjargötu klukkan 8:40 í morgun þegar Reykjavíkurmaraþonið hófst. Maraþonið í ár er það stærsta til þessa, en alls hafa rúmlega tólf þúsund manns skráð sig til leiks.

Maraþonið, hálfmaraþonið og boðhlaupið voru ræst klukkan 8:40, þeir hlauparar sem hyggjast fara tíu kílómetra lögðu af stað klukkan 9:30, og loks verður þriggja kílómetra skemmtiskokk ræst af borgarstjóra á hádegi.

Þjóðin hefur samtals heitið tæpum 38 milljónum á hlaupagarpana, og munu þessar fjárhæðir renna óskiptar til góðgerðarfélaga, en aldrei hefur jafn mikið fé safnast. Þá hafa aldrei fleiri erlendir hlauparar tekið þátt í maraþoninu en fjórtán hundruð manns eru á landinu til að hlaupa.

Nokkrum götum verður lokað í Reykjavík vegna hlaupsins og Menningarnætur en borgin beinir því til gesta að nýta sér þjónustu strætisvagna í dag sem býðst öllum að kostnaðarlausu. Þá minnir Heilbrigðisteftirlit borgarinnar hundaeigendur á að óheimilt er að vera með hunda á hátíðarsamkomum fyrir almenning af tillitsemi við aðra gesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×