Handbolti

Óskar plataði Markús Mána í skóna – Líklega eini leikur vetrarins

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Markús Máni Michaelsson.
Markús Máni Michaelsson. Mynd/Anton
Stórskyttan og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Markús Máni Michaelson reif fram skónna og lék með Val gegn Fram í undanúrslitum Eimskipsbikarsins í handbolta í dag. Þetta var fyrsti leikur Markúsar með Val í vetur og líklega sá eini.

Hann lék aðeins í vörninni hjá Val í dag og stóð sig með prýði. Hann barði vel frá sér og var fokinn útaf með tveggja mínúta brottvísun eftir tæplega tveggja mínúta leik. Markús fann sig betur í vörninni eftir því sem á leikinn leið en Valsmenn unnu frábæran sigur, 33-31, eftir framlengdan leik.

Óskar Bjarni Óskarsson var ánægður með frammistöðu Markúsar í dag sem hefur æft reglulega með liðinu að undanförnu.

„Markús er búinn að vera að æfa með okkur einu sinni, tvisvar í viku undanfarin tvö ár. Vegna vinnu þá getur hann ekki verið í þessu með okkur að fullu en ég náði að plata hann til að spila þar sem nokkrir leikmenn voru ólöglegir hjá okkur í dag. Það gekk upp í dag en hefði alveg getað farið til andskotans. Hann er í hörkuformi og barði vel frá sér í dag," sagði Óskar Bjarni en mun hann leika fleiri leiki með Val í vetur?

„Ég reikna ekki með því að hann leiki meira með okkur í vetur þar sem hann verður mikið fjarverandi á næstunni," sagði Óskar en það er aldrei að vita nema að það kítli Markús Mána að leika úrslitaleikinn í bikarnum í lok febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×