Lífið

Heitustu rísandi stjörnurnar tilnefndar

Fimm ungir og efnilegir kvikmyndaleikarar hafa verið tilnefndir til bresku Bafta-verðlaunanna í flokknum Rísandi stjarna. Um er að ræða þau Tom Hardy, sem sló í gegn í Inception, Andrew Garfield sem leikur hinn nýja Spider-Man, Bond-stúlkuna Gemmu Arterton, bandarísku leikkonuna Emmu Stone og Aaron Johnson sem lék aðalhlutverkið í hasarmyndinni Kick-Ass. Sigurvegarinn verður tilkynntur á Bafta-hátíðinni 13. febrúar.

„Ég er í mjög góðum hópi með öllum þessum leikurum sem eru tilnefndir," sagði Arterton, sem lék í síðustu Bond-mynd, Quantum of Solace. Hún hefur einnig leikið í myndum á borð við Clash of the Titans og Prince of Persia.

Kvikmyndagagnrýnandinn og meðlimur Bafta-dómnefndarinnar Mark Kermode segir að tilnefning Arterton sýni vel hver hugsunin er á bak við flokkinn Rísandi stjarna. „Þetta er ekki listi yfir byrjendur í faginu heldur snýst þetta um þá sem eru við það að breytast í stjörnur," sagði hann.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá lista Orange, sem kostar verðlaunin, áður en hann var skorinn niður úr átta í tilnefningarnar fimm. Meðal þeirra sem komust ekki áfram er Noomi Rapace, sem lék Lisbeth Salander.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.