Lífið

Fréttaskýring: Er rokkið komið á endastöð?

Kjartan Guðmundsson skrifar
Bon Jovi var vinsælasta rokksveit heims á síðasta ári. Margir telja þá staðreynd skýrt dæmi um hnignun rokksins sem tónlistarstefnu.
Bon Jovi var vinsælasta rokksveit heims á síðasta ári. Margir telja þá staðreynd skýrt dæmi um hnignun rokksins sem tónlistarstefnu.
Dauða rokksins sem ríkjandi tónlistarstefnu er reglulega spáð, nú síðast í vikunni af breska bransatímaritinu MusicWeek, en aðeins þrjú af hundrað vinsælustu lögunum í Bretlandi á síðasta ári teljast til rokklaga.

Rokk og ról er komið til að vera - það mun aldrei deyja," sungu nostalgíuboltarnir í Sha-Na-Na (í lauslegri snörun) á sínum tíma og ekki minni kanónur en AC/DC og Neil Young eru meðal

Rokk og ról er komið til að vera - það mun aldrei deyja," sungu nostalgíuboltarnir í Sha-Na-Na (í lauslegri snörun) á sínum tíma og ekki minni kanónur en AC/DC og Neil Young eru meðal þeirra mörgu sem tekið hafa undir það sjónarmið í textum sínum.

Nokkrum árum síðar, um miðjan tíunda áratuginn, sendi sjálfur Lenny Kravitz frá sér lagið "Rock'n'Roll Is Dead," þar sem hann gerði lítið úr klisjukenndu rokklíferni samtímans. Margir af þeim sem á annað borð gáfu sér tíma til að rýna í textann urðu móðgaðir og sögðu Lenny fara með fleipur, en listamaðurinn hló að öllu saman og sagðist bara hafa verið að grínast, enda lagið öðru fremur byggt á trixum sem hefðu hæglega getað verið hluti af námsefninu Rokkgítarriff 101.

En alhæfing Kravitz er fráleitt einstök í sögunni. Með reglulegu millibili hefur dauða rokksins verið spáð og stórbrotinni endurreisn þess jafnharðan. Því má í raun furðu sæta að enn þann dag í dag veki slíkir spádómar mikla athygli, eins og raunin varð í vikunni þegar fyrirsagnir netmiðla um allan heim öskruðu á lesendur að rokkið væri sannarlega dautt og grafið, með vísan í tölur yfir vinsælustu lög síðasta árs í Bretlandi.

Hrun á vinsældalistanum

Að þessu sinni var það breska tónlistarbransatímaritið MusicWeek sem hratt umræðunni um vanheilsu rokksins af stað á ný með þeirri tilkynningu að aðeins þrjú rokklög vermdu listann yfir hundrað vinsælustu lögin í Bretlandi á síðasta ári. Samkvæmt útreikningum tímaritsins hafa rokklögin á listanum ekki verið færri í hálfa öld og hefur algjört hrun verið í vinsældum þeirra síðan fyrir tveimur árum þegar rokklögin á listanum voru 27 talsins. Árið 2009 voru þau þrettán. Á síðasta ári var hipphopp og R'n'B vinsælast, en 47 lög á listanum voru þeirrar tegundar, á meðan popplög voru fjörutíu og danslög tíu talsins.

Það sem mörgum þykir jafnvel enn undarlegra er að vinsælasta rokklagið árið 2010 var hinn þrjátíu ára gamli slagari Don't Stop Believing með iðnaðarrokksveitinni Journey, sem sló aftur í gegn eftir að hafa heyrst í hinni ofurvinsælu unglingasápuóperu Glee sem sýnd er á Stöð 2, fólki til mismikillar ánægju.

Hin tvö lögin sem MusicWeek flokkar undir rokklög á listanum eru Hey, Soul Sister með Train og Dog Days Are Over með Florence + The Machine, en vafalaust eru þeir margir til sem setja myndu bæði þessi lög í hóp popplaga í stað rokklaga.

Raunar tilgreinir MusicWeek ekki nákvæmlega hvaða aðferðum tímaritið beitir í flokkun sinni, enda slíkar útskýringar nánast ómögulegar nú til dags þegar dægurtónlistin hefur tvístrast í óteljandi og margra laga undirflokka. Líklega er óhætt að fullyrða að flest öll tónlist sem byggir á hinum hefðbundna rafmagnsgítarleik, bassa, trommum og fleiri hljóðfærum í aukahlutverkum, falli undir hugtakið rokk í þessu tilliti.

Þá er enn fremur litið framhjá þeim lærðu skoðunum margra að rokkið sé í sífelldri þróun, að til dæmis house-tónlist sé einungis einn armur þessa víðtæka hugtaks. En einhvers konar skilgreiningar verður jú að nýtast við, vilji fólk stytta sér stundir með að rýna í þessi mál.

Og vissulega er gaman að velta þeim fyrir sér með hliðsjón af þessum tölum. Sjálft rokkið fæddist ekki í Bretlandi en þaðan hefur þó komið margt af því frægasta og vinsælasta sem tónlistarstefnan, í víðum skilningi, hefur alið af sér í gegnum tíðina.

Angus Young og félagar í AC/DC sungu um að rokkið myndi aldrei deyja.
Frábær rokklög sjaldgæf

Í viðtali við The Guardian segir tónlistarsérfræðingurinn og plötusnúðurinn Paul Gambaccini, sem hefur marga fjöruna sopið í þessum málum, nokkuð orðrétt: "Þetta eru endalok rokktímabilsins. Það er búið, á sama hátt og tímabil djassins er liðið undir lok. Það þýðir þó ekki að aldrei muni góðir rokktónlistarmenn koma fram á sjónarsviðið aftur, en rokkið, sem ráðandi stefna, er liðin tíð. Ég kenni í brjóst um rokktónlistarmenn í dag, því plötufyrirtæki kjósa frekar að elta skjótfenginn gróða en þróun til langs tíma," segir rokkprófessorinn svokallaði Gambaccini og tekur sem dæmi einbeittan brotavilja plötufyrirtækja við að koma keppendum í raunveruleikaþættinum X Factor á framfæri.

Framkvæmdastjóri útvarpstöðvarinnar Absolute Radio tekur í sama streng og segir í viðtali við MusicWeek að gítartónlist hafði verið sofandi á árinu 2010, á meðan George Ergatoudis, tónlistarstjóri BBC Radio 1, telur afar sjaldgæft að frábær rokklög séu samin nú á dögum.



Bon Jovi vinsælust á síðasta ári


Ekki svo að skilja að öllum rokkhljómsveitum og -tónlistarmönnum gangi illa að selja afurðir sínar í Bretlandi og víðar. Vinsældir þeirra má þó fremur merkja á tónleikamiðasölu og sölu á stórum plötum en ekki smáskífum, en smáskífusala hefur löngum verið viðmið vinsælda í Bretlandi.

Það sem flestir af vinsælustu rokkurum dagsins í dag eiga sameiginlegt er hár aldur, sem gæti bent til þess að tónlistarneytendur finni fátt nýtt í rokkinu lengur, og vissulega eru ár og aldir síðan "alvöru" rokkstjarna af gamla skólanum kom fram á sjónarsviðið. Bon Jovi græddi mest allra hljómsveita á tónleikamiðasölu á síðasta ári, AC/DC varð þar í öðru sæti og U2 í þriðja. Samanlagður aldur söngvara þessara sveita er 161 ár. Samkvæmt skýrslu Deloitte verða fjörutíu prósent af tuttugu tekjuhæstu rokktónlistarmönnum þessa árs sextug eða eldri á næsta ári og uppreisnarandinn sem áður þótti einkenna rokkið líklega víðs fjarri.

"Skipuleggjendur tónleika eru með hjartað í buxunum vegna þess að innan tíu ára verða þessar hljómsveitar hættar að spila, og hvað gera þeir þá?" spyr Gambaccini, eðlilega.



Bransinn fer í hringi


Eins og áður sagði hefur rokkinu farnast betur með sölu á stórum plötum en smáskífum, en sala stórra platna hríðminnkar ár frá ári á meðan þeim sem hala niður tónlist ólöglega fjölgar ört. Það setur óhjákvæmilega aukna pressu á plötufyrirtæki að fjárfesta fyrst og fremst í hljómsveitum og listamönnum sem eru nokkuð öruggir um að seljast vel. Rokkarar eru ekki þeirra á meðal, þessa stundina að minnsta kosti.

Ekki er þó allt breskt bransafólk reiðubúið að skrifa undir dánarvottorð rokksins strax. "Tónlistarbransinn fer í hringi," segir Paul Stokes, einn af ritstjórum tónlistartímaritsins New Musical Express, í viðtali við Guardian. "Okkur hefur áður verið sagt að rokkið væri dautt, til dæmis í lok níunda og tíunda áratugar síðustu aldar, en alltaf kemur það aftur."

Martin Stokes, framkvæmdastjóri Official Charts fyrirtækisins sem hefur umsjón með samantekt breskra vinsældalista, tekur undir það sjónarmið og telur líklegt að efnahagskreppan komi til með að flýta endurreisn vinsælda rokksins. "Mest af áhugaverðri og ögrandi tónlist hefur verið gert á erfiðum tímum. Kannski virka íhaldsstjórnir hvetjandi á ögrandi rokktónlist, og núna höfum við eina slíka."

(Heimildir: MusicWeek, The Guardian)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.